Ungt fólk telur kannabis minna skaðlegt en þeir sem eldri eru

Heim / Fréttir / Ungt fólk telur kannabis minna skaðlegt en þeir sem eldri eru

Meira en 87% landsmanna telja kannabis skaðlegt heilsunni en rúmlega 12% telja það ekki skaðlegt. Þar af telja rúmlega 53% að það sé mjög skaðlegt.

Athyglisvert er að skoða hversu mikill munur er á viðhorfi fólks til kannabiss eftir aldri. Þannig telja einungis tæplega 39% þeirra sem eru undir þrítugu að kannabis sé mjög skaðlegt. Rösklega 2% telja það alls ekki skaðlegt og meira en fimmtungur þeirra telur að kannabis sé mjög lítið skaðlegt, þannig að 22% ungs fólks, yngra en 30 ára, telja kannabis mjög lítið eða alls ekki skaðlegt. Til samanburðar telja 56-62% þeirra sem eru 30 ára eða eldri að kannabis sé mjög skaðlegt. Rösklega 16% þeirra sem eru 30-39 ára telja kannabis mjög lítið eða alls ekki skaðlegt en 5-10% þeirra sem eru 40 ára eða eldri.

Konur telja í meiri mæli en karlar að kannabis sé mjög skaðlegt. Það er ekki munur á mati fólks eftir menntun. Á hinn bóginn er fólk líklegra til að telja kannabis skaðlegt ef það þekkir einhvern undir lögaldri í nærumhverfi sínu sem hefur orðið háður ólöglegum vímuefnum.

 

 

MEIRA EN HELMINGUR FÓLKS Á ALDRINUM 18-29 ÁRA HEFUR PRÓFAР EÐA NEYTT KANNABISS

Maskína spurði fólk einnig hvort það hefði prófað eða neytt nokkurra vímugjafa. Ekki var spurt um magn heldur einungis hvort og hvað fólk hefði prófað eða neytt.  Langstærsti hluti fólks hefur prófað eða neytt áfengis eða næstum 83%. Þriðjungur hefur prófað eða neytt kannabiss eða grass en einungis rösklega 13% höfðu ekki neytt eða prófað þau efni sem upp voru talin (áfengi meðtalið).

Næst á eftir kannabis kemur amfetamín og kókaín, en 12-13% höfðu prófað eða neytt þeirra efna. Næstum 6% höfðu prófað MDMA og rösklega 4% lyfseðilsskyldra lyfja til að komast í vímu.

Enginn munur er á áfengisneyslu bakgrunnshópa. Hins vegar er mikill munur eftir aldri á öðrum efnum. Meira en helmingur fólks á aldrinum 18-29 ára hefur prófað kannabis eða gras en rúmlega 14% þeirra sem eru 60 ára og eldri og tilheyra svokallaðri ´68 kynslóð, en oft hefur því verið haldið fram að kannabisneysla þeirra hafi verið umtalsverð. Eftir því sem fólk er yngra þeim mun líklegra er það til að hafa prófað efnin sem spurt var um; kannabis, amfetamín, kókaín, sveppi, MDMA, lyfseðilsskyld lyf til að komast í vímu, LSD eða önnur vímuefni.

Lítill munur er á kynjum en þeir sem hafa skemmri skólagöngu eru líklegri til að hafa prófað vímuefni en aðrir. Þá kemur einnig fram að þeir sem þekkja einhvern sem hefur orðið háður vímuefnum undir lögaldri í sínu nærumhverfi eru líklegri til að prófa vímuefni en hinir sem þekka engan. Líklegt er að aldur hafi umtalsverð áhrif þ.e. yngra fólk hefur skemmri skólagöngu og þau þekki fleiri undir lögaldri sem hafi misnotað vímuefni.

Könnun þessi er gerð af Maskínu fyrir Foreldrahús, hún er um þekkingu og viðhorf almennings til vímuefnaneyslu ungmenna.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Við úrvinnslu voru gögnin vegin til samræmis við tölur Hagstofunnar þannig að hópurinn sem svarar endurspeglar þjóðina út frá kyni, aldri og búsetu.

Könnunin fór fram dagana 19. til 28. ágúst 2019, en henni lauk áður en herferðinni Vaknaðu, þú átt bara eitt líf, var ýtt úr vör. Svarendur voru 897 talsins.

Smelltu hér til að skoða fréttatilkynninguna

Aðrar fréttir