Mismiklar væntingar til ráðherra ríkisstjórnarinnar – ráðherrar Framsóknar á flugi

Heim / Fréttir / Mismiklar væntingar til ráðherra ríkisstjórnarinnar – ráðherrar Framsóknar á flugi

Í lok árs lagði Maskína fyrir spurningar um væntingar fólks til ráðherra í nýrri ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Bæði var þar spurt um þann ráðherra sem fólk hafði mestar væntingar til og þess sem það hafði minnstar væntingar til.

Fyrstu sóttvarnaraðgerðir Willums höfðu áhrif

Könnunin var bæði lögð fyrir og eftir að Willum Þór, nýr heilbrigðisráðherra, hafði kynnt fyrstu sóttvarnaraðgerðir í sinni ráðherratíð og ljóst að aðgerðirnar höfu áhrif á þær væntingar sem fólk hafði til hans. Áður en fyrstu sóttvarnaraðgerðir voru settar fram sögðust rétt tæplega 40% aðspurðra hafa mestar væntingar til hans af öllum ráðherrum. Þessar væntingar drógust verulega saman eftir að aðgerðirnar voru settar fram en þá sögðust 19% aðspurðra hafa mestar væntingar til hans.

Þegar gögnin eru skoðuð í heild yfir bæði tímabilin sögðust tæplega 36% svarenda hafa mestar væntingar til nýs heilbrigðisráðherra, Willums Þórs. Á eftir honum kom samflokksmaður hans, Ásmundur Einar Daðason mennta-og barnamálaráðherra en 20% sögðust hafa mestar væntingar til hans. Fleiri konur en karlar sögðust hafa mestar væntingar til Ásmundar, auk þess sem fleiri svarendur í yngri aldurshópum, 18-29 og 30-39 ára, höfðu mestar væntingar til hans.

Ríflega 13% svarenda sögðust hafa mestar væntingar til forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur. Líkt og með Ásmund voru konur líklegri en karlar til að hafa mestar væntingar til Katrínar. Aðrir ráðherrar voru nefndir mun sjaldnar.

Minnstu væntingarnar til innanríkisráðherra

30% svarenda sögðust hafa minnstar væntingar til Jóns Gunnarssonar, innanríkisráðherra. Á eftir Jóni kom formaður Sjálfstæðisflokksins en rúmlega 16% svarenda sögðust hafa minnstar væntingar til Bjarna Benediktssonar.

14% höfðu minnstar væntingar til Gumundar Inga Guðbrandssonar, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra.

Hér má finna pdf skýrslu með ítarlegri niðurstöðum.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 956 talsins af öllu landinu og 601 í Reykjavík. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 15. til 28. desember 2021.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir