Meirihluti Íslendinga segir „pylsa“ fremur en „pulsa“

Heim / Fréttir / Meirihluti Íslendinga segir „pylsa“ fremur en „pulsa“

Rökræður um hvort eigi að segja „pylsa“ eða „pulsa“ hafa leitt af sér ófá vinaslit í gegnum tíðina. Rannsókn Maskínu sýnir að þjóðin er klofin í afstöðu sinni til þessa máls. Ef útkljá ætti deilurnar með lagasetningu í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu bendir allt til þess að „pylsa“ yrði hinn opinberi framburður.

Sunnlendingar og Suðurnesjamenn segja fremur „pulsa“ en „pylsa“. Norðlendingar eru hins vegar all samstíga í viðhorfi, þar sem ríflega 82% segja „pylsa“. Fólk á aldrinum 30-49 ára og fólk sem býr á heimili með þrjú eða fleiri börn segir fremur „pulsa“, en fólk á öðrum aldri og þeir sem ekki eru með börn á heimilinu segja mun frekar „pylsa“.

Tómatsósa er uppáhalds pylsuálegg Íslendinga, en á bilinu 90-91% fá sér hana. Næst á eftir koma steiktur laukur og sinnep með um 87%.

Karlar eru líklegri en konur til að vilja sinnep á pylsu/pulsu og eftir því sem fólk er yngra, þeim mun líklegra er það til að fá sér tómatsósu og steiktan lauk. Dyggustu stuðningsmenn remúlaðis búa á Austurlandi en á Norðurlandi er fólk mun viljugra en annars staðar til prófa óhefðbundið álegg.

Tæpur helmingur landsmanna fær sér annað hvort eina „með öllu“ eða „öllu nema hráum“ en hinn helmingurinn dreifist á fjölmargar aðrar samsetningar.

Svarendur voru 861 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Könnunin fór fram dagana 26. júlí – 9. ágúst 2018.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir