Aðeins fleiri hlynntir en andvígir sameiningu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu

Heim / Fréttir / Aðeins fleiri hlynntir en andvígir sameiningu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu

Fleiri íbúar höfuðborgarsvæðisins 18 ára og eldri eru hlynntir en andvígir sameiningu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu (Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness) samkvæmt könnun Maskínu. Á bilinu 51-52% eru hlynnt sameiningu sveitarfélaganna en ríflega 48% eru andvíg.

Afstaða til sameiningar er breytileg eftir búsetu á höfuðborgarsvæðinu. Reykvíkingar vilja sameiningu fremur en íbúar nágrannasveitarfélaganna en Garðbæingar og Seltirningar eru andvígastir sameiningunni. Þá eru karlar hlynntari sameiningu en konur. Yngsti svarendahópurinn, 18-29 ára, sker sig nokkuð úr hvað viðhorf til sameiningar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu varðar en meirihluti þess hóps er andvígur.

Talsverður munur er á viðhorfi eftir stjórnmálaskoðun en mikill meirihluti þeirra sem myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn er andvígur sameiningu. Á hinn bóginn er stór meirihluti þeirra sem myndu kjósa Pírata hlynntur sameiningu.

Svarendum gafst kostur á að tilgreina hvaða sveitarfélög þeir vildu helst að sameinuðust. Sameining allra sveitarfélaganna var oftast nefnd, en alls nefndu um 31% þá samsetningu. Næst algengasta tillagan var sameining Reykjavíkuborgar og Seltjarnarness, en ríflega 9% báru upp þá tillögu.

Tillaga að spurningunni kom í gegnum heimasíðu Maskínu. Svarendur voru 500 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, búsettir á höfuðborgarsvæðinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu á höfuðborgarsvæðinu. Könnunin fór fram dagana 19. júní – 2. júlí 2018.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir