Áfram fleiri hlynntir en andvígir Borgarlínunni

Heim / Fréttir / Áfram fleiri hlynntir en andvígir Borgarlínunni

Öllu fleiri Íslendingar 18 ára og eldri eru hlynntir en andvígir Borgarlínunni samkvæmt könnun Maskínu. Um 45% eru hlynnt Borgarlínunni en hátt í 28% eru andvíg. Þá eru tæplega 27% í meðallagi hlynnt eða andvíg Borgarlínunni.

Ungt fólkt er hlynntara Borgarlínunni en eldra. Svarendur á aldrinum 18-39 ára eru hlynntastir en þeir sem eru 50-59 ára eru andvígastir Borgarlínunni. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru jafnframt hlynntari Borgarlínu en aðrir Íslendingar. Milli 53% og 54% Reykvíkinga eru hlynnt henni og naumlega 26% andvíg. Íbúar nágrannasveitafélaga Reykjavíkur eru ekki jafn hlynntir Borgarlínunni en þó segjast um 43% þeirra hlynnt en rúmlega 28% andvíg.

Þeir sem hafa háskólapróf eru talsvert hlynntari Borgarlínunni en þeir sem hafa grunnmenntun og framhaldsskóla- eða iðnmenntun. Um 56% háskólamenntaðra eru hlynnt henni, en aðeins um 34% grunnskólamenntaðra og 36% framhalds- eða iðnmenntaðra. Afstaða til Borgarlínunnar er afar breytileg eftir stjórnmálaskoðun. Um 8-17% þeirra sem myndu kjósa Sjálfstæðisflokk, Framsóknarflokk, Miðflokk og Flokk fólksins eru hlynnt henni á móti 69-81% kjósenda Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar.

Sama spurning var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu í janúar síðastliðinn. Nokkur breyting hefur orðið á viðhorfi Íslendinga á Borgarlínu síðan þá, en 53% voru hlynnt henni í janúar, samanborið við 45% nú í júní. Fleiri eru nú andvígir eða segjast í meðallagi hlynntir/andvígir Borgarlínunni en í janúar.

Viðhorf kvenna til Borgarlínu hefur breyst talsvert meira en viðhorf karla. Slétt 42% kvenna eru hlynnt Borgarlínu nú, en rúmlega 58% voru hlynnt í janúar. Slétt 49% karla eru nú hlynnt Borgarlínu, en um 47% voru hlynnt síðast þegar könnunin var gerð.

Talsverð breyting hefur orðið á afstöðu til Borgarlínunnar eftir búsetu. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru ekki eins hlynntir Borgarlínu núna og þegar mælt var í janúar, en mesta breytingin varð á viðhorfi íbúa Vesturlands og Vestfjarða auk Suðurlands og Reykjaness þar sem færri eru nú hlynntir Borgarlínunni en í janúar.

Viðhorf nokkurra kjósendahópa hefur breyst mikið síðan síðasta mæling fór fram, en hlutfall andvígra meðal kjósenda Flokks fólksins, Miðflokksins, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hefur hækkað mikið og nú er meirihluti allra þessara kjósendahópa andvígur Borgarlínunni. Fleiri kjósendur Viðreisnar eru nú hlynntir Borgarlínunni en í janúar.

Svarendur voru 836 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Könnunin fór fram dagana 19. júní – 2. júlí 2018.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir