Meiri hluti treystir núverandi ríkistjórn illa fyrir áframhaldandi sölu í Íslandsbanka

Heim / Fréttir / Meiri hluti treystir núverandi ríkistjórn illa fyrir áframhaldandi sölu í Íslandsbanka

Um fátt annað hefur verið rætt á kaffistofum landsins en skýrslu Ríkisendurskoðunar á sölu ríkisins á eignarhlut í Íslandsbanka undanfarið. Eins og með mörg umdeild mál eru skoðanir skiptar og því lék Maskínu forvitni á að vita hver afstaða almennings væri til tveggja þátta sem snerta söluna.

Slétt 63% treysta ríkisstjórninni illa til selja meira í bankanum
Niðurstöðurnar sýna að talsverður meirihluti svarenda treystir núverandi ríkisstjórn illa til að selja meira af eignarhlut ríkisjóðs í Íslandsbanka eða 63%. Þeir sem treysta núverandi ríkisstjórn vel til að selja meira í bankanum eru tæplega 16%. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins treysta núverandi ríkisstjórn helst til áframhaldandi sölu eða tæplega 60%. Það sama er hins vegar ekki upp á teningnum þegar afstaða kjósenda hinna ríkisstjórnarflokkanna er skoðuð. Meðal kjósenda Framsóknar eru um 16% sem treysta núverandi stjórnvöldum vel til að frekari sölu á ríkiseign í Íslandsbanka og rúmlega 14% kjósenda VG eru sama sinnis.
Vantraustið er mest meðal kjósenda Sósíalistaflokksins, Pírata, Samfylkingar og Flokks fólksins.

Ákall á rannsóknarnefnd?
Strax í vor töluðu ráðherrar í ríkisstjórn um að ef skýrsla Ríkisendurskoðunar gæfi tilefni til skoða málið betur yrði sett á laggirnar rannsóknarnefnd Alþingis til að fara með ítarlegri hætti ofan í kjölinn á sölunni. Fljótlega eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út heyrðust þau sjónarmið að þörf væri á nánari athugun með aðstoð slíkrar rannsóknarnefndar. Niðurstöður þessar Maskínukönnunar sýna að rúmlega 60% svarenda eru fylgjandi því að sett verði á laggarnir slík nefnd. Aðeins voru 12% svarenda andvíg því.
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins skera sig frá kjósendum annarra flokka í þessu máli en aðeins rúmlega fjórðungur þeirra er hlynntur því að rannsóknarnefnd Alþingis rannsaki málið frekar. Það er lægra hlutfall en hjá kjósendum annarra flokka. Það er aðeins meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins þar sem fleiri eru andvígir stofnun svona rannsóknarnefndar en hlynntir henni.

Ítarlegri niðurstöður má nálgast í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 987, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 18. til 22. nóvember 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir