Aðeins ráðherrar Sjálfstæðisflokks sem fleiri bera mikið traust til nú en í fyrri mælingu

Heim / Fréttir / Aðeins ráðherrar Sjálfstæðisflokks sem fleiri bera mikið traust til nú en í fyrri mælingu

Traust almennings til þjóðkjörinna fulltrúa er mikilvægt. Maskína mælir nú í þriðja sinn traust til ráðherra ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á þessu kjörtímabili, en áður var það í nóvember 2021 og í apríl 2022. Hérna liggja fyrir niðurstöður þriðju og jafnframt nýjustu Maskínukönnunar þar sem almenningur var spurður um traust hans til ráðherra.

Aðeins ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem fleiri bera meira traust til nú en fyrr á árinu
Í niðurstöðunum má sjá að fjöldi þeirra sem segjast bera mikið traust til ráðherra dregst saman meðal allra ráðherra nema ráðherra Sjálfstæðisflokksins, en allir fimm ráðherrar flokksins rétta nokkuð úr kútnum frá síðustu mælingu í apríl í ár. Mest er breytingin hjá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur en þeim sem bera mikið traust til hennar hefur fjölgað um 9 prósentustig frá því í apríl og segist nú 31% aðspurðra bera mikið traust til hennar.

Ásmundur Einar aftur fremstur meðal jafningja
Líkt og í könnun Maskínu í aprílmánuði er það Ásmundur Einar Daðason sem flestir segjast bera mikið traust til eða um 46% aðspurðra, en engu að síður hefur hlutfall þeirra sem eru þeirrar skoðunar dregist saman um 6 prósentustig frá síðustu mælingu. Fast á hæla Ásmundar kemur Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, en 43% aðspurðra segjast nú bera mikið traust til hennar sem er nánast það sama og fyrr á árinu.

Lilja Alfreðsdóttir tekur dýfu
Í tveimur síðustu mælingum hefur Jón Gunnarsson verið sá ráðherra sem fæstir bera mikið traust til. Nú hefur hins vegar orðið breyting á og nú er það Lilja Alfreðsdóttir sem fæstir bera mikið traust til eða um 19% aðspurðra. Þetta er mikil breyting frá stöðunni í aprílmánuði þegar 33% þjóðarinnar báru mikið traust til hennar, sem er 14 prósentustiga lækkun.

Færri bera mikið traust til Sigurðar Inga og Bjarna en annarra samflokksráðherra þeirra
Katrín er eini flokksformaðurinn í ríkisstjórninni sem raðast efst af samflokksráðherrum sínum á listann en bæði innan Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins eru það aðrir ráðherrar en formennirnir sem njóta meira trausts meðal almennings. Fyrir ofan Sigurð Inga eru bæði Ásmundur Einar og Willum Þór af ráðherrum Framsóknar. Staða Bjarna er svipuð innan sinna herbúða en Þórdís Kolbrún, Guðlaugur Þór og Áslaug Arna njóta öll mikils traust meðal stærri hóps en formaðurinn Bjarni.

Ítarlegri niðurstöður er finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 950, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 11. til 15. nóvember 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir