Lifandi jólatré á undanhaldi

Heim / Fréttir / Lifandi jólatré á undanhaldi

Fyrir marga er það veigamikill þáttur í undirbúningi jólanna að velja sér jólatré, setja það upp og skreyta. Samfélagsmiðlar fyllast af fallega skreyttum trjám með margskonar glingri og ljósum. En hvort velja Íslendingar frekar lifandi jólatré eða gervitré? Maskína hefur frá árinu 2010 lagt fram þessa spurningu.

Meirihluti með gervitré
Um 55% aðspurðra sögðust vera með gervitré á sínu heimili yfir jólahátíðina. Þessi fjöldi hefur lítið breyst á undanförnum árum en náði þó hámarki árið 2020 þegar 58% völdu sér slíkt tré. Frá upphafi mælinga hefur þeim sem eru með gervitré á sínu heimili fjölgað um 5 prósentustig.

Lifandi trjám hefur fækkað
Í ár sögðust 26% þeirra sem tóku þátt vera með lifandi tré heima hjá sér um jólin, það er mjög sambærilegt hlutfall og hefur mælst undanfarin 4 ár. Hins vegar hefur verið mikil breyting á síðan Maskína spurði um þetta fyrsta árið 2010 en þá voru yfir 40% landsmanna með lifandi tré, fækkunin hefur orðið jafnt og þétt síðan þá.

Heimilum án jólatrés fjölgar
Þeir sem hafa ekki jólatré inn á heimilinu hafa aldrei verið fleiri en í ár þegar 19% þeirra sem svöruðu könnuninni voru ekki með jólatré. Á því hefur orðið töluverð aukning frá fyrstu mlingu árið 2010 þegar þau sem völdu að hafa ekkert jólatré voru 9%. Aukning er því 10 prósentustig á undanförnum 12 árum.

Ítarlegri niðurstöður er að finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 967, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 16. til 20. desember 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir