Fækkun meðal þeirra sem skjóta upp flugeldum

Heim / Fréttir / Fækkun meðal þeirra sem skjóta upp flugeldum

Íslendingar hafa oftar en ekki verið stórtækir í sprenginum flugelda á gamlárskvöld og þannig kvatt gamla árið með miklum hvelli. Fyrir suma hverja er þetta mikilvægur þáttur í stuðningi við björgunasveitir víðsvegar um landið á meðan aðrir hafa einfaldlega gaman af litadýrðinni, hvellunum og stemmingunni sem þessu fylgir. Svo eru aðrir sem eru ekki par hrifnir af flugeldum og benda á  áhrif þeirra á loftgæði og skelfingu lostin gæludýr og búfénað. Það er eins og með svo margt – sitt sýnist hverjum. Maskínu hefur frá árinu 2018 spurt landsmenn hvort þeir hyggi á að skjóta upp flugeldum og sýna niðurstöðurnar nokkurn samdrátt frá upphafi mælinga.

Helmingur skýtur upp og  helmingur ekki
Ríflega helmingur sagði að skotið yrði upp flugeldum á sínu heimili um þessi áramót en rétt tæplega helmingur ekki. Þessar tölur eru þær sömu og í fyrra en um áramótin 2020/2021 höfðu þeir sem ætluðu að skjóta upp aldrei verið færri eða um 46%. Fjöldi þeirra sem hugðist skjóta upp í ár hafði dregist saman um 6 prósentustig frá upphafi mælinga áramótin 2018/2019.

Ítarlegri niðurstöður er að finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 967, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 16. til 20. desember 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir