Hver er uppáhalds jólasveinn landsmanna?

Heim / Fréttir / Hver er uppáhalds jólasveinn landsmanna?

Hin séríslenska hefð um jólasveinana þrettán er flestum landsmönnum kær. En hver þeirra er í mestu uppáhaldi hjá landanum? Maskína hefur borið upp þessa spurningu síðan árið 2015 og í gegnum tíðina hafa það verið þeir Stúfur og Kertasníkir sem berjast á toppnum og það er engin undantekning í ár.

Kertsníkir tyllir sér aftur á toppinn
Eins og fyrr segir eru það þeir Stúfur og Kertasníkir sem flestir hafa valið sem sinn uppáhalds jólasvein frá því að mælingar hófust. Í fyrra var það í fyrsta skipti sem hinn smái Stúfur gat stært sig af því að vera vinsælastur bræðra sinna en síðan þá hefur Kertasníkir spýtt í lófana og í ár hefur hann endurheimt toppsætið í þessara vinsældarkosningu.

Þvörusleikir, Pottaskefill og Askasleikir þurfa að hugsa sinn gang
Það eru þeir Askasleikir, Þvörusleikir og Pottaskefill sem reka lestina og þurfa að hugsa ráð sitt ef þeir vilja standast öðrum bræðum sínum snúning.

Ítarlegri niðurstöður er að finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 967, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 16. til 20. desember 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

 

Aðrar fréttir