Langflestir Íslendingar hyggjast ferðast innanlands í sumar

Heim / Fréttir / Langflestir Íslendingar hyggjast ferðast innanlands í sumar

Um mánaðamótin apríl-maí (Maí ’20) spurði Maskína Íslendinga 18 ára og eldri hversu líklegt væri að þeir myndu ferðast innanlands í sumar. Ríflega 82% kváðu það líklegt, en aðeins um 7% ólíklegt. Til samanburðar töldu 77-78% þjóðarinnar mánuði fyrr (Apríl ’20) að það væri líklegt að þau myndu ferðast innanlands í sumar.

Konur eru líklegri en karlar til að ferðast innanlands í sumar, 30-39 ára líklegri en aðrir, sem og þeir sem hafa lengri skólagöngu og hærri tekjur. Þá eru Austfirðingar líklegastir til að ferðast innanlands, þeir sem eiga maka og Framsóknarmenn.

Sá landshluti sem Íslendingar vilja helst heimsækja er Suðurland (51,1%), svo Norðurland eystra (43,7%), þar á eftir Austurland (38,5%) og Vesturland er í fjórða sæti (34,9%). Sama röð var á vinsældum landshlutanna í könnuninni um mánaðamótin mars-apríl (Apríl ’20).

Svarendur voru 1.057 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru á aldrinum 18-75 ára af öllu landinu. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 25. apríl til 4. maí 2020.

Nánari upplýsingar má finna hjá Þóru Ásgeirsdóttur í síma 578-0125 eða hjá thora@maskina.is.

Aðrar fréttir