Hvað finnst almenningi um frumvarp dómsmálaráðherra á breytingu á útlendingalögum?

Heim / Fréttir / Hvað finnst almenningi um frumvarp dómsmálaráðherra á breytingu á útlendingalögum?

Frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum hefur verið á milli tannanna á fólki upp á síðkastið. Maskínu lék forvitni á að vita hversu vel almenningur hefur í raun kynnt sér málið og hver afstaða hans er.

Lítill hópur hefur kynnt sér málið mikið
Slétt 11% aðspurðra sögðust hafa kynnt sér málið mikið og sýndu niðurstöðurnar að þeir sem eru 50 ára eða eldri eru aðeins líklegri til þess en yngri hópar því á bilinu 13–14% þess hóps hafði kynnt sér frumvarpið mikið. Karlar hafa í meiri mæli kynnt sér breytingar frumvarpsins mikið en konur og segja  12–13% karla hafa kynnt sér breytingarnar mikið en 8–9% kvenna hafa gert slíkt hið sama.

Það eru kjósendur Miðflokksins, Samfylkingarinnar og Viðreisnar sem hafa helst kynnt sér frumvarpið. Um 23% kjósenda Miðflokksins hafa kynnt sér það mikið, 18–19% kjósenda Samfylkingarinnar og 17–18% kjósenda Viðreisnar. Kjósendur annarra flokka hafa síður kynnt sér frumvarpið.

Hlutfall svarenda sem kynnt hefur sér málið lítið eða ekkert er ríflega 60%.

Breytilegt viðhorf til innihalds frumvarpsins
Maskína spurði almenning einnig hvort hann væri hlynntur eða andvígur frumvarpinu. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að tæplega 23% segjast hlynnt breytingunum sem felast í frumvarpinu en 31–32% eru því andvíg. Talsverður munur er á skoðunum kynjanna. Karlar eru í ríkari mæli hlynntir frumvarpinu en konur og eru um 30% karla hlynntir því en aðeins rúmlega 14% kvenna.

Aukinn stuðningur með hækkandi aldri
Í niðurstöðunum má sjá að meiri stuðningur er við frumvarpið meðal eldri hópa en yngri og stuðningurinn mestur hjá 60 ára og eldri en rúmlega 40% þeirra eru hlynnt nýja frumvarpi dómsmálaráðherra. Þá er rétt rúmur fjórðungur 40–59 ára hlynntur frumvarpinu. Á hinn bóginn eru aðeins eru 9–13% þeirra sem eru undir fertugu hlynnt frumvarpinu.

Þessu er öfugt farið þegar menntunarstig svarenda er skoðað en þar minnkar stuðningurinn eftir því sem menntunarstig svarenda hækkar.

Skiptar skoðanir meðal kjósenda ríkisstjórnarflokkanna
Áberandi mestur stuðningur við frumvarpið er meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins en rúmlega 46% þeirra eru hlynnt frumvarpinu og innan við 5% þeirra andvíg því. Aftur á móti má sjá að þegar skoðanir kjósenda hinna tveggja ríkisstjórnarflokkanna eru rýndar sést að ekki er sambærilegur stuðningur meðal þeirra við frumvarpið og meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Ríflega fjórðungur kjósenda Framsóknar er hlynntur frumvarpinu en 22% andvíg því og um 20% kjósenda Vinstri grænna hlynnt en tæplega 40% þeirra andvíg. Þá eru kjósendur bæði Miðflokksins og Flokks fólksins í miklum mæli hlynnt frumvarpinu.

Þeir sem eru hlynntir frumvarpinu höfðu í meiri mæli kynnt sér innihald þess en þeir sem voru andvígir. Þannig að um 45% þeirra sem höfðu kynnt sér frumvarpið mikið voru hlynnt því, en aðeins hartnær 12% þeirra sem höfðu kynnt sér það lítið eða ekkert.

Ítarlegri niðurstöðu má finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.016, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 26. til 31. október 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir