Haturstal og neikvæð upplifun af netinu – könnun Maskínu fyrir Fjölmiðlanefnd

Heim / Fréttir / Haturstal og neikvæð upplifun af netinu – könnun Maskínu fyrir Fjölmiðlanefnd

Maskína vann víðtæka könnun fyrir Fjölmiðlanefnd fyrr á árinu. Nýlega gaf fjölmiðlanefnd út þriðju sína skýrslu úr niðurstöðunum en þessi hluti snýr að haturstali og neikvæðri upplifun af netinu. Í niðurstöðunum kom meðal annars fram að ungar konur á aldrinum 15-17 eru í mestum áhættuhópi að vera þvingaðar til að senda af sér myndir eða aðrar persónulegar upplýsingar. Sömuleiðis er þessi hópur líklegastur til að lenda í því að myndir af þeim séu birtar á netinu geng vilja þeirra. Alls hafði um fjórðungur kvenna í þessum aldurshópi orðið fyrir því að myndir væru birtar af þeim á netinu án samþykkis, til samanburðar höfðu 6,3% karla á sama aldri orðið fyrir þessu.

„Þessar niðurstöður draga upp grafalvarlega mynd af því umhverfi sem ungt fólk og þá sérstaklega ungar konur búa við á netinu í dag. Meginmarkmið könnunarinnar er að búa til ramma fyrir stefnumótun á sviði miðlalæsis svo að hægt sé að bregðast við með aðgerðum til úrbóta. Hér sjáum við svart á hvítu óviðunandi ástand og hóp sem þarfnast aðstoðar sem allra fyrst,“ segir Skúli Bragi Geirdal verkefnastjóri miðlalæsis hjá fjölmiðlanefnd.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér sem pdf.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir