Hamingjusamir Íslendingar

Heim / Fréttir / Hamingjusamir Íslendingar

Rannsóknir Maskínu undanfarin ár benda til þess að Íslendingar séu upp til hópa hamingjusamir. Meðalhamingja þeirra í janúar 2018 er 7,59 á kvarðanum 0-10, og hátt í 30% merkja við 9 eða 10 á þessum hamingjukvarða. Hamingjan hefur lítið breyst þessi 3 ár sem Maskína hefur mælt hana, en mælist þó aðeins hærri í janúar 2018 en í janúar 2017. Hamingja virðist þó alltaf mælast örlítið lægri í byrjun árs en í lok árs, en í desember 2017 var meðalhamingja 7,73.

                          

Hamingja eykst bæði með hækkandi aldri og tekjum. Einnig eru þeir sem telja sig hafa hærri heimilistekjur en meðaltekjur heimilia í landinu hamingjusamari en aðrir. Þá eru þeir sem eru í sambúð eða hjónabandi mun hamingjusamari en aðrir. Ekki virðist vera munur á hamingju eftir menntun eða stjórnmálaskoðunum.

Svarendur voru 781 talsins og koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 18.- 25. janúar 2018.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir