Er fjöldi flóttamanna sem fá hæli hérlendis hæfilegur?

Heim / Fréttir / Er fjöldi flóttamanna sem fá hæli hérlendis hæfilegur?

Málefni flóttamanna hafa verið fyrirferðamikil í þjóðmálaumræðunni undanfarið. Ytri aðstæður hafa gert það að verkum að fjöldi fólks á flótta í heiminum eykst stöðugt. Maskína hefur undanfarin ár spurt landsmenn um viðhorf þeirra til þess fjölda sem Íslendingar veita hæli. Hér liggja niðurstöður ársins 2022 fyrir.

Rúmlega 40% segja fjöldann hæfilegan
Spurningin sem nú er borin upp í fjórða sinn snýr að því hvort að fólk telji fjölda flóttafólks sem fær hæli hérlendis vera of mikinn, hæfilegan eða of lítinn. Niðurstöður sýna að rúmlega 40% aðspurðra telja fjöldann hæfilegan. Þetta rímar mjög við niðurstöður fyrri ára að árinu 2020 undanskildu þegar aðeins 35–36% svarenda sagði fjöldann hæfilegan.

Litlar breytingar á viðhorfi fólks
Rétt rúmlega 30% svarenda telja að fjöldi flóttafólks sé of lítill sem er mjög áþekkt tölum fyrri ára. En hlutfall þeirra sem eru á þeirri skoðun hefur verið á bilinu 29–33% í fyrri mælingum. Það sama má segja um þá sem finnst fjöldi flóttamanna vera of mikill en hlutfall þeirra er nokkuð sambærilegt við hlutfall fyrri ára að undanskildu árinu 2020. Í ár eru það 26–27% svarenda sem telja fjölda flóttamanna hérlendis of mikinn en árið 2020 voru tæplega 32% þeirrar skoðunar. Árin áður, 2017 og 2018, var fjöldinn á bilinu 24–26%.

Kjósendur þriggja flokka skera sig frá öðrum
það vekur eftirtekt að þegar svör svarenda eru skoðuð út frá stjórnmálaskoðun eru það kjósendur þriggja flokkar sem skera sig frá kjósendum annarra flokka. Þannig sýna niðurstöðurnar að hátt í 70% kjósenda Miðflokksins telja að of mikill fjöldi flóttamanna fái hæli hérlendis, nánast 60% kjósenda Flokks fólks eru sama sinnis og um 45% kjósenda Sjálfstæðisflokksins.

Um 55% kjósenda Framsóknar telja fjöldann hæfilegan. Þegar litið er til þeirra sem telja of fáa fá hæli hér má sjá að rétt um 60% kjósenda Pírata telja svo vera og um 55% kjósenda Samfylkingarinnar eru á sama máli.

Ítarlegri niðurstöður má finna í PDF-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 2.149, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 19. til 24. ágúst 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir