Eldgos og flugvöllur

Heim / Fréttir / Eldgos og flugvöllur

Mikið hefur verið rætt um hvernig best sé að haga uppbyggingu nýs flugvallar í kjölfar þess að gjósa fór á ný á Reykjanesi. Maskína spurði því almenning um hvaða áhrif eldgosið hefði á viðhorf þeirra til flugvallar í Vatnsmýri, í Hvassahrauni og almennt.

Óbreytt afstaða rúmlega helmings til uppbyggingar flugvallar í Hvassahrauni
Það kemur ekki á óvart að eldgosið hefur mest áhrif á afstöðu fólks til uppbyggingar flugvallar í Hvassahrauni en tæplega 44% aðspurðra sögðust neikvæðari nú en áður gagnvart uppbyggingu flugvallar þar. Athygli vekur hins vegar að rúmlega helmingur segir afstöðu sína gagnvart flugvelli í Hvassahrauni óbreytt frá því fyrir eldgosið.

Fimmtungur jákvæðari gagnvart flugvellinum í Vatnsmýri nú en fyrir eldgos
Flugvöllurinn í Vatnsmýri hefur verið vinsælt viðfangsefni Íslendinga um langa hríð og sýndu þessar niðurstöður að um 20% svarenda eru nú jákvæðari fyrir flugvellinum í Vatnsmýri heldur en fyrir eldgos. Þar sést að eldgosið hefur meiri áhrif á á afstöðu þeirra sem eldri eru og segist ríflega þriðjungur þeirra sem eru 60 ára eldri vera jákvæðari nú gagnvart flugvelli í Vatnsmýri en fyrir eldgos. Ríflega 70% aðspurðra segja eldgosið hafa engin áhrif á afstöðu sína til flugvallarins.

Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.070, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 12. til 17. ágúst 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir