Vita kjósendur hverja þeir eru að kjósa?

Heim / Fréttir / Vita kjósendur hverja þeir eru að kjósa?

Frambjóðendur eru nú á fleygiferð um kjördæmi sín að kynna sig og stefnumál sín fyrir kjósendum. Maskína spurði um hversu vel eða illa kjósendur höfðu kynnt sér frambjóðendur í sínu kjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að 28% sögðust hafa kynnt sér frambjóðendur vel en rúmlega 40% höfðu kynnt sér þá illa.

Þegar niðurstöðurnar eru rýndar eftir kyni sést að karlar hafa frekar kynnt sér frambjóðendur vel en konur. Bæði yngsti hópur svarenda og sá elsti skáru sig frá öðrum aldurshópum og höfðu kynnt sér sína frambjóðendur best.

Þeir sem sögðust ætla að kjósa annars vegar Samfylkingu og hins vegar Miðflokkinn höfðu kynnt sér frambjóðendur betur en kjósendur annarra flokka. Þeir sem sögðust kjósa Sósíalistaflokkinn höfðu kynnt sér frambjóðendur í sínu kjördæmi verst.

Ítarlegri niðurstöður könnunarinnar má finna í pdf skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 3144 talsins. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 8. til 13. september 2021.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir