Viðhorf til laxeldir í sjókvíum og á landi

Heim / Fréttir / Viðhorf til laxeldir í sjókvíum og á landi

Í Maskínukönnun, sem framkvæmd var í ágúst var spurt um viðhorf fólks til laxeldis, annars vegar í sjókvíum og hins vegar á landi.

Tæplega 22% aðspurðra eru hlynnt laxeldi í sjókvíum við Ísland en rúmlega 48% andvíg slíku eldi. Kjósendur Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Framsóknarflokks eru hlynntari sjókvíaeldi en kjósendur annarra flokka. Kjósendur VG og Pírata eru andvígastir laxeldi í sjókvíum.

Mun fleiri eru hlynntir laxeldi á landi eða um 55% en 15% andvíg því. Þegar niðurstöðurnar eru rýndar eftir stjórnmálaskoðun kemur fram að kjósendur Framsóknarflokksins eru hlynntari laxeldi á landi ásamt kjósendum Miðflokks og Sjálfstæðisflokks en kjósendur Samfylkingarinnar og Sósíalistaflokksins andvígastir því.

Svarendur könnunar voru 822 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 13. til 23. ágúst 2021.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér sem pdf.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir