Tíundi hver Íslendingur telur að við stöndum okkur vel í að hlúa að ungu fólki sem lendir í vímuefnaneyslu á unglingsaldri

Heim / Fréttir / Tíundi hver Íslendingur telur að við stöndum okkur vel í að hlúa að ungu fólki sem lendir í vímuefnaneyslu á unglingsaldri

Einungis tíundi hver Íslendingur telur að við stöndum okkur vel sem þjóð þegar kemur að því að hlúa að ungmennum sem orðið hafa háð vímuefnum. Þar af er 1,6% sem telur að við stöndum okkur mjög vel. Það eru hins vegar rösklega 55% sem telja að við stöndum okkur illa.
Konum finnst við standa okkur mun verr en körlum, því hátt í 70% kvenna segja að við stöndum okkur illa en rúmlega 42% karla eru sama sinnis. Eftir því sem fólk eldist þeim mun betur finnst því staðið að þessum málum á Íslandi. Þannig telja meira en tveir af hverjum þremur sem eru undir þrítugu að við stöndum okkur illa en rétt innan við 40% þeirra sem eru 60 ára og eldri. Eftir því sem fólk hefur lengri skólagöngu þeim mun betur telur það að við Íslendingar stöndum við bakið á ungu fólki sem leiðst hefur út í vímuefnaneyslu. Þetta er eftirtektarvert þar sem áður hefur komið fram að ungt fólk þekkir fleira annað ungt fólk sem er í neyslu og því ætti það að vita betur hvað gert er fyrir þá sem lenda í þessari stöðu. Einnig kemur fram að þeir sem hafa prófað eða notað vímuefni telja að við stöndum okkur mun verr en hinir sem hafa einungis notað áfengi eða enga aðra vímugjafa.

MIKLAR ÁHYGGJUR AF VÍMUEFNANEYSLU UNGS FÓLKS
Um 70% segjast hafa miklar áhyggjur af vímuefnaneyslu ungs fólks, en um 7% hafa litlar áhyggjur.

Yngra fólk hefur mun minni áhyggjur en þeir sem eldri eru. Þannig segja einungis rösklega 25% þeirra sem eru 18-29 ára að þau hafi miklar áhyggjur en rúmlega 44% þeirra sem eru 60 ára og eldri. Þó hefur áður komið fram í könnun Maskínu að neysla vímuefna sem mun meiri meðal ungs fólks en þeirra sem eldri eru. Konur hafa og meiri áhyggjur en karlar. Einnig kemur fram að þeir sem hafa stystu skólagönguna hafa í meiri mæli mjög miklar áhyggjur en þeir sem hafa lengri skólagöngu.
Fólk sem hvorki hefur prófað áfengi né vímuefni hefur mestar áhyggjur af vímuefnaneyslu ungs fólks en minnstar áhyggjur hafa þeir sem prófað hafa vímuefni. Þá hafa þeir sem þekkja einhvern undir lögaldri í nærumhverfi sínu sem hafa orðið háðir vímuefnum, miklu meiri áhyggjur af vímuefnaneyslu ungs fólks en hinir sem þekkja engan.

VÍMUEFNANEYSLA UNGS FÓLKS HEFUR AUKIST Á SÍÐUSTU 10 ÁRUM AÐ MATI FÓLKS
Næstum 72% telja að vímuefnaneysla ungs fólks hafi aukist á síðustu 10 árum, þar af um 30% að hún hafi aukist mikið. Milli 7% og 8% telja að hún hafi minnkað.

Sem fyrr eru áhyggjur yngra fólks mun minni en þeirra eldri. Þannig telja telja rúmlega 62% þeirra sem eru 18-29 ára að vímuefnaneysla hafi aukist, en rúmlega 82% þeirra sem eru 60 ára og eldri. Konur telja í meiri mæli en karlar að vímuefnaneysla ungs fólks hafi aukist síðustu 10 árin.
Þeir sem hafa prófað eða neytt vímuefna og þeir sem þekkja engan á unglingsaldri sem hefur orðið háður vímuefnum telja fremur en viðmiðunarhópar að vímuefnaneysla hafi aukist minna á síðustu 10 árum.

Könnun þessi er gerð af Maskínu fyrir Foreldrahús, en hún er um þekkingu og viðhorf almennings til vímuefnaneyslu ungmenna.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Við úrvinnslu voru gögnin vegin til samræmis við tölur Hagstofunnar þannig að hópurinn sem svarar endurspeglar þjóðina út frá kyni, aldri og búsetu.
Könnunin fór fram dagana 19. til 28. ágúst 2019, en henni lauk áður en herferðinni Vaknaðu, þú átt bara eitt líf, var ýtt úr vör. Svarendur voru 897 talsins.

Smelltu hér til að skoða niðurstöðurnar

Aðrar fréttir