Eftir því sem nær líður sveitarstjórnarkosningum, þann 14. maí næstkomandi, eykst spennan og mælingar Maskínu sýna að talsverð hreyfing er á fylgi flokka. Framboðslistar flokkanna liggja nú flestir fyrir og línur að skýrast jafnt og þétt. Maskína mun áfram birta reglulegar fylgistölur í Reykjavík fram að kosningum.
Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin bítast um að vera stærst
Frá síðustu mælingu Maskínu, sem birt var þann 21. mars sl., hafa bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin bætt við sig fylgi en þessir tveir flokkar deila nú með sér helmingi atkvæða. Í síðustu mælingu var Sjálfstæðisflokkurinn stærstur, með 22% fylgi, og með um tveggja prósentustiga forskot á Samfylkinguna sem hafði þá um 20% fylgi. Núna hefur Samfylkingin bætt við sig og mælist nú stærsti flokkurinn með um 26% en Sjálfstæðisflokkurinn andar ofan í hálsmál hennar með 25–26% fylgi.
Framsókn bætir við sig jafnt og þétt
Framsóknarflokkurinn er á miklu flugi og hefur bætt við sig um fjórum prósentustigum frá síðustu mælingu Maskínu og er nú með 14% fylgi. Það er ríflega tíu prósentustigum meira en flokkurinn uppskar í síðustu sveitarstjórnarkosningum þegar hann hlaut rúmlega 3% atkvæða.
Samstarfsflokkar Samfylkingar í borgarstjórn dala
Allir samstarfsflokkar Samfylkingarinnar í borgarstjórn mælast minni nú en þeirri síðustu. Fylgi Pírata er núna 11–12% en var 16–17% í mælingu Maskínu í mars sl. Fylgið nú er þó meira en flokkurinn uppskar í síðustu sveitarstjórnarkosningum þegar Píratar hlutu tæplega 8% atkvæða. Viðreisn mælist 2–3 prósentustigum minni en síðast og er núna undir kjörfylgi eða tæplega 6%. Vinstri græn gefur talsvert eftir frá síðustu mælingu og er nú með 4–5% fylgi sem er svipað því sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Í síðustu mælingu Maskínu voru Vinstri græn með 8% fylgi.
Sósíalistaflokkurinn gefur í
Sósíalistaflokkurinn hefur ekki mælst stærri í mælingum Maskínu frá síðustu kosningum en nú er flokkurinn með 8–9% fylgi. Það er tveimur prósentustigum meira en flokkurinn uppskar í síðustu kosningum.
Flokkur fólksins gefur eftir
Þessar niðurstöður sýna að tæplega 4% Reykvíkinga myndu kjósa Flokk fólksins í kosningunum í maí næstkomandi. Það er minna fylgi en flokkurinn mældist með í síðustu Maskínukönnun þegar rétt um 6% sögðust ætla sér að kjósa flokkinn.
Miðflokkurinn að þurrkast út?
Miðflokkurinn hefur aldrei mælst minni því núna er hann með innan við 1% fylgi.
Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 828, en þeir eru á aldrinum 18 ára og eldri og búsettir í Reykjavík. Könnunin fór fram 22. til 29. mars 2022.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar til helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.