Óánægja með störf ríkisstjórnarinnar aldrei verið meiri

Heim / Fréttir / Óánægja með störf ríkisstjórnarinnar aldrei verið meiri

Á ársfjórðungsfresti birtir Maskína niðurstöður um hversu mikil ánægja mælist annars vegar með störf ríkisstjórnarinnar og hins vegar með störf stjórnarandstöðunnar. Niðurstöður á öðrum ársfjórðungi sýnir að óánægjan heldur áfram að aukast og þeim sem eru ánægð með störf ríkisstjórnarinnar heldur áfram að fækka.

Óánægjan eykst og ánægjan minnkar
Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs sögðust 48% aðspurðra óánægð með störf ríkisstjórnarinnar og var það aukning um 19 prósentustig á einu ári. Talan hafði ekki verið hærri frá því að núverandi ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum. Nú á öðrum ársfjórðungi eykst óánægjan og er nú í fyrsta sinn meira en helmingur aðspurðra óánægður með störf ríkisstjórnarinnar eða 54%. Á sama tími fækkar þeim sem eru ánægð með störf hennar um 5 prósentustig á milli ársfjórðunga og eru því nú aðeins 18% aðspurðra ánægð með störf ríkisstjórnarinnar.

Minni breytingar hjá stjórnarandstöðunni
Óánægja með störf stjórnarandstöðunnar eykst sömuleiðis á þessum öðrum ársfjórðungi eða um 5 prósentustig. Nú segjast 42% aðspurðra óánægð með störf hennar og aðeins 14% ánægð sem er um einu prósentustigi lægra en á fyrsta ársfjórðungi.

Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 4.892, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram apríl til júní 2023.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir