Fylgi Samfylkingarinnar dalar á milli mánaða í fyrsta skipti á þessu ári – er þó áfram stærsti flokkurinn

Heim / Fréttir / Fylgi Samfylkingarinnar dalar á milli mánaða í fyrsta skipti á þessu ári – er þó áfram stærsti flokkurinn

Þrátt fyrir að flestir landsmenn séu á ferð og flugi núna yfir hásumarið fara fylgismælingar Maskínu aldrei í sumarfrí. Núna liggur fyrir fylgið fyrir flokkanna á landsvísu í júlímánuði. Helstu tíðindin sem koma fram í þessari Maskínukönnun eru þau að fylgi Samfylkingarinnar dregst aðeins saman á milli mælinga og samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna eykst í fyrsta skipti í nokkra mánuði. Breytingar á fylgi flokkanna frá því í júní eru allar litlar og innan skekkjumarka.

Samfylkingin áfram stærst
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er fylgi Samfylkingarinnar núna rúmlega 25% sem er um 2 prósentustigum minna en í síðasta mánuði. En þá hafði flokkurinn bætt jafn og þétt við sig í könnunum Maskínu síðan í janúar í kjölfar formannsskipta. Mest mældist fylgi flokksins ríflega 27% í maí og júní síðastliðnum.

Sjálfstæðisflokkurinn undir 20%
Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur verið nokkuð stöðugt undanfarna mánuði samkvæmt Maskínu og stendur það nú í rúmlega 19%. Það er sambærilegt og verið hefur undanfarna mánuði en það náði síðast 20% fyrir fjórum mánuðum síðan.

Viðreisn, Framsókn og Píratar á svipuðum slóðum
Píratar hafa verið með í kringum 11% fylgi í könnunum Maskínu undanfarna mánuði og er engin breyting þar á nú í júlí. Viðreisn brýtur 10%-múrinn en fylgið hennar er mjög svipað því sem flokkurinn mældist með í júní. Bæði Viðreisn og Píratar mælast ögn yfir kjörfylgi sínu. Það er aftur á móti annað uppá tengingum hjá Framsókn sem hefur samkvæmt þessum tölum tapað nokkru fylgi frá kosningum þegar flokkurinn uppskar rúm 17%. Framsóknarflokkurinn er nú með um 10% sem er litlu meira en í júní.

VG tosast lítið eitt upp
Í maí mældist flokkur forsætisráðherra með 6% fylgi sem var með því allra minnsta sem áður hafði sést. Núna rétta VG-liðar örlítið út kútnum og hafa samkvæmt þessari könnun stuðning 8% kjósenda.

Miðflokkur og Flokkur fólksins með 6%
Bæði Miðflokkurinn og Flokkur fólksins eru nú með 6% fylgi og hefur það haldist nokkuð stöðugt á því bili undanfarna mánuði.

Sósílistar reka lestina
Fylgi Sósíalista er mjög áþekkt því sem flokkurinn uppskar í kosningum síðustu eða um 4–5%.

Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna eykst í fyrsta skipti síðan í mars
Þrátt fyrir að allir samstarfsflokkarnir í ríkisstjórninni mælist nú töluvert undir kjörfylgi sínu í síðustu kosningum er þetta í fyrsta skipti í þónokkra mánuði sem samanlagt fylgi þeirra eykst á milli mælinga. Það stendur nú í um 37% en var rétt rúm 34% í síðasta mánuði.

Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 836, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 6. til 24. júlí 2023.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir