Miklar sviptingar í fylgi flokkanna í Reykjavík

Heim / Fréttir / Miklar sviptingar í fylgi flokkanna í Reykjavík

Maskína heldur áfram að mæla fylgi þeirra flokka sem bjóða fram til borgarstjórnar í Reykjavík í kosningum í maí næstkomandi. Mánuður er frá því að síðasta Maskínukönnun var birt og óhætt að segja að talsverðar sviptingar hafi orðið síðan þá.

Flokkur borgarstjóra á hraðri niðurleið
Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú stærstur flokkanna í Reykjavík með 22% fylgi og hefur fylgið ekkert breyst frá síðustu mælingu. Það sama er ekki hægt að segja um Samfylkinguna, flokk borgarstjóra, en hún mælist nú með um 20% fylgi sem er 8 prósentustigum minna en í síðustu Maskínukönnun sem var í febrúar. Bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin mælast nú talsvert undir kjörfylgi sínu úr síðustu kosningum en þá uppskar Sjálfstæðisflokkurinn naumlega 31% og Samfylkingin um 26% fylgi.

Píratar, VG og Viðreisn á uppleið
Ólíkt flokki borgarstjórans líta niðurstöðurnar vel út meðal samstarfsflokka hans í borgarstjórn og bæði Píratar og Viðreins mælast stærri nú en í fyrri mælingum og kosningunum. Stígandi hefur verið í fylgi Pírtata í Maskínukönnunum og mælast þeir nú með 16–17% fylgi. Það er mun meira en flokkurinn uppskar í síðustu kosningum þegar hann hlaut hátt í 8% atkvæða. Viðreisn er að rétta úr kútnum eftir að hafa mælst með í kringum 6% fylgi í síðustu tveimur Maskínukönnunum. Núna mælist flokkurinn með 8–9% fylgi sem er sambærilegt því sem Viðreisn hlaut í kosningum 2018. VG sem mælist minnstur samstarfsflokkanna í borgarstjórn, er þó með mun meira fylgi en í síðustu kosningum þegar flokkurinn hlaut undir 5% atkvæða. Í undanförnum mælingum Maskínu hefur VG verið með fylgi á bilinu 8–9% og núna í mars segjast 8% aðspurðra Reykvíkinga ætla að kjósa flokkinn í komandi kosningum.

Framsóknarflokkurinn bætir við sig
Framsóknarflokkurinn er á miklu flugi og mælist nú með um 10% fylgi. Það er mun meira fylgi en Maskínukönnun í febrúar sýndi þegar flokkurinn var með á bilinu 6–7% fylgi. Fylgi Framsóknarflokksins hefur samkvæmt þessu þrefaldast frá síðustu kosningum þegar hann uppskar rétt rúmlega 3% atkvæða.

Sósalistar og Flokkur fólksins á svipuðum slóðum
Bæði Sósíalistar og Flokkurinn fólksins mælast nú með um 6% fylgi sem er mjög svipað og síðasta Maskínukönnun sýndi. Flokkur fólksins mælist nú stærri en í síðustu kosningum  en Sósíalistaflokkurinn örlítið minni.

Miðflokkurinn rekur lestina
Miðflokkurinn mælist minnstur þeirra flokka sem nú þegar eiga fulltrúa í borgarstjórn og sýnir þessi Maskínukönnun flokkinn með rúmlega 3% fylgi. Það er talsvert minna en flokkurinn fékk í síðustu kosningum þegar hann hlaut um 6% atkvæða.

Baráttan um atkvæðin
Það er ljóst að framundan eru spennandi vikur þar sem Maskína mun birta fylgistölur í Reykjavík mánaðarlega fram að kosningum. Flokkarnir eru margir hverjir í óðaönn við kynna sína lista og frambjóðendur og því verða þær línur væntanlega farnar að skýrast enn betur þegar næsta Maskínukönnun birtist.

Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.

 

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 971, en þeir eru á aldrinum 18 ára og eldri og búsettir í Reykjavík. Könnunin fór fram 17. febrúar til 9. mars 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar til helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir