Meirihluti Íslendinga neikvæður gagnvart kjararáði

Heim / Fréttir / Meirihluti Íslendinga neikvæður gagnvart kjararáði

Maskína kannaði viðhorf þjóðarinnar til Kjararáðs í janúar 2018. Hugmyndin að því að mæla viðhorf þjóðarinnar til Kjararáðs kom í gegnum heimasíðu Maskínu, en hér geta notendur komið með tillögur að spurningum til að leggja fyrir þjóðina.

Í ljós koma að meirihluti Íslendinga er neikvæður gagnvart kjararáði. Rúmlega 68% eru neikvæð en einungis tæplega 8% eru jákvæð. Eftir því sem Íslendingar segjast þekkja betur til kjararáðs þeim mun neikvæðari eru þeir gagnvart því (fylgni -0,18; p-gildi < 0,05). En einungis um 44% þeirra sem segjast þekkja illa til kjararáðs eru neikvæð gagnvart ráðinu á meðan 72-73% þeirra sem segjast þekkja vel til kjararáðs eru neikvæð gagnvart því.

 

 

Þónokkur munur er á viðhorfi fólks eftir aldri, en þeir sem eru um eða yfir miðjum aldri eru neikvæðari gagnvart kjararáði en þeir yngri. Þannig er aðeins rúmur meirihluti (57,4%) þeirra sem eru undir þrítugu neikvæður en hátt í 80% þeirra sem eru 60 ára eða eldri eru neikvæð gagnvart ráðinu. Einnig er munur á viðhorfi til kjararáðs eftir heimilisgerð þar sem þeir sem búa með öðrum fullorðnum en engum börnum eru áberandi neikvæðari gagnvart því en þeir sem búa við aðra tegund heimilisgerðar.

Að lokum er viðhorf til kjararáðs breytilegt eftir stjórnmálaskoðun. Kjósendur Pírata og Flokks fólksins eru mun neikvæðari gagnvart því en kjósendur annarra flokka (kjósendur Framsóknar eru þó ekki marktækt jákvæðari).

Svarendur voru 781 talsins og koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 18.- 25. janúar 2018.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir