Meirihluti Íslendinga býr í draumahverfinu sínu

Heim / Fréttir / Meirihluti Íslendinga býr í draumahverfinu sínu

Grasið er ekki alltaf grænna hinu megin, því samkvæmt svarendum í Þjóðgátt Maskínu búa um 74% Íslendinga í póstnúmerinu sem þau vilja helst vera.

Ætla má að fólk nálgist draumahverfið sitt þegar árin líða, en eldra fólk segist frekar búa þar sem það vildi helst búa en yngra fólk. Enn fremur segjast einhleypir frekar vilja búa í öðru póstnúmeri en þeir búa nú heldur en aðrir.

Svarendur í Reykjanesbæ (93%), á Seltjarnarnesi (91%) og í Hlíðahverfi Reykjavíkur (89%) segjast helst vera búsettir í draumahverfum sínum, en þeir sem búa á Akranesi (53%), í Vatnsendahverfi Kópavogs (42%) og í Fella- og Hólahverfum Reykjavíkur (42%) eru líklegastir til að vilja frekar búa annars staðar.

Algengast er að þeir sem vilja heldur búa í öðru en eigin póstnúmeri vilji búa í Miðborg Reykjavíkur (15%), á Kársnesi/Digranesi í Kópavogi (9%) eða í Hlíðahverfi Reykjavíkur (7%). Stór hluti einhleypra og ungra svarenda vildi helst búa í Miðborg Reykjavíkur og margir sem búa í öðrum hverfum Reykjavíkur vilja einnig komast þangað. Margir eldri en 60 ára vilja vera á Kársnesi/Digranesi, en þeir sem hafa hæstar heimilistekjur og vilja færa sig um set hafa mestan áhuga á að flytja í Miðborg Reykjavíkur, í Garðabæ eða í Háleitis- og Bústaðahverfi.

Þeir sem búa í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og vilja flytja annað nefna helst Kársnesi/Digranes í Kópavogi eða Garðabæ sem draumahverfi, svarendur á Vesturlandi og Vestfjörðum nefna oft Akureyri sunnan Glerár eða Háleitis- og Bústaðahverfi í Reykjavík, Norðlendingar vilja gjarnan flytja í Miðborg Reykjavíkur eða inn á Akureyri og Austlendingar til Garðabæjar.

Svarendur voru 970 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Könnunin fór fram dagana 14. – 28. september 2018.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir