Íslendingar kalla eftir afsögn alþingismanna í kjölfar umdeildra ummæla

Heim / Fréttir / Íslendingar kalla eftir afsögn alþingismanna í kjölfar umdeildra ummæla

Á milli 74% og 91% Íslendinga eru hlynnt afsögn alþingismannanna sex í kjölfar umdeildra samskipta sem hljóðritaðar voru þann 20. nóvember síðastliðinn. Flestum finnst að Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Miðflokksins eigi að segja af sér en næstum jafn háu hlutfalli finnst að Bergþór Ólason eigi einnig að gera það. Rétt innan við þremur af hverjum fjórum finnst að Anna Kolbrún Árnadóttir, einnig þingmaður Miðflokksins, eigi að segja af sér þingmennsku en það er lægsta hlutfallið. Það er því ljóst að í öllum tilvikum finnst miklum meirihluta landsmanna að þingmennirnir ættu að hverfa til annarra starfa.

Í öllum tilvikum eru konur hlynntari afsögn þingmannanna en karlar. Þeir sem eru eldri en 50 ára eru umburðarlyndari gagnvart því að þingmennirnir séu áfram á þingi því 8-16% þeirra eru andvíg því að þeir segi af sér en 2-10% í öðrum aldurshópum.

Lang lægst hlutfall þeirra sem kusu Miðflokkinn í síðustu alþingiskosningum (28. október 2017) kalla eftir afsögn sexmenningana.

Rúmlega 61% Íslendinga hefur aldrei orðið vitni að umræðu líkt og þeirri sem umræddir þingmenn tóku þátt í, á síðastliðnum 12 mánuðum, en rúmlega 8% hafa oft orðið vitni að samskonar umræðu. Íslendingar á aldrinum 18-29 ára er líklegastir til þess að hafa orðið vitni að slíkri umræðu og fólk 60 ára og eldra ólíklegast.

Samræður þingmannanna sex fór fram á opinberum stað, en voru teknar upp án vitundar þingmannanna. Milli 86% og 87% Íslendinga finnst það hafa verið rétt ákvörðun fjölmiðla að birta upplýsingarnar úr upptökunni á móti rúmlega 10% sem þótti ákvörðunin röng. Marktækur munur er á viðhorfi karla og kvenna, en konum finnst ákvörðunin hafa verið rétt í um 90% tilvika samanborið við rúmlega 83% karla. Kjósendur Miðflokksins skera sig einnig mikið úr hér því um 92% þeirra finnst ákvörðunin röng.

Svarendur voru 1.311 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Könnunin fór fram dagana 30. nóvember – 3. desember 2018.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir