Hreyfing á fylgi flokkanna

Heim / Fréttir / Hreyfing á fylgi flokkanna

Það er áhugavert að rýna í fylgi flokkanna nú þegar um það bil ár er í næstu kosningar. Samkvæmt þessari könnun fengi Sjálfstæðisflokkurinn næstum 23% atkvæða, Samfylkingin næstum 18, Píratar tæplega 16%, Viðreisn 14, VG rúmlega 10%, Framsóknarflokkurinn tæplega 8% og Miðflokkur og Flokkur fólksins milli 5 og 6 prósent.

Mikil hreyfing er á fylgi flokkanna og á það við bæði stjórnarflokkana og stjórnarandstöðuflokkana.

Hvert fer fylgið?

Af þeim sem kusu Sjálfstæðisflokkinn síðast ætla tæplega 82% að kjósa flokkinn aftur nú. Þau 18% sem eftir standa fara að mestu leyti til Miðflokksins, eða 7% og 4,5% til Viðreisnar.

Tveir af hverjum þremur sem kusu Framsóknarflokkinn síðast ætla að kjósa hann aftur nú. Rösklega 10% ætla að kjósa Flokk fólksins, rösklega 7% Pírata, en 4-5% Miðflokkinn og Samfylkinguna.

Einungis innan við helmingur þeirra sem kusu Vinstrihreyfinguna – grænt framboð í síðustu kosningum ætla að gera það aftur nú. Rúmlega 26% þeirra ætla að kjósa Samfylkinguna og næstum fimmtungur Pírata.

Hátt í tveir af hverjum þremur sem kusu Samfylkingun í síðustu kosningum ætla að kjósa hana aftur nú. Rúmlega 14% ætla að kjósa Viðreisn núna og um 10% Pírata. Þá ætla rösklega 4% að kjósa VG nú.

Rösklega 78% þeirra sem kusu Pírata fyrir 3 árum ætla að kjósa þá aftur nú en hin um það bil 20 prósentin fara nokkuð jafnt til Samfylkingar og Viðreisnar.

Næstum fjórir af hverjum fimm sem kusu Viðreisn síðast ætla að gera það aftur nú en af þeim sem Viðreisn missir fara flestir til Samfylkingar.

Hvaðan kemur fylgið?

Það kemur á daginn að ríkisstjórnarflokkarnir höfða í mun minni mæli til kjósenda annarra flokka en þeir flokkar sem eru í stjórnarandstöðu. Sjálfstæðisflokkurinn sækir þannig langmest af sínu fylgi í dag til þeirra sem kusu flokkinn síðast, eða rúmlega 94% en sitt hvor um 2 prósentustig koma frá Viðreisn og Miðflokki en nánast ekkert frá öðrum flokkum. Vinstrihreyfingin – grænt framboð sækir næstum 85% til fyrri kjósenda sinna, um 6% frá Samfylkingu og um 5% frá Framsóknarflokki. Þegar fylgi Framsóknarflokks er skoðað sést að 78% þeirra fylgis kemur frá þeim sem kusu Framsóknarflokkinn síðast, milli 5 og 6% frá annars vegar Samfylkingu og hins vegar Sjálfstæðisflokki, en sitt hvor 4% frá Miðflokki og Flokki fólksins.

Þegar stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir eru skoðaðir sést að af þeim sem ætla að kjósa Samfylkinguna núna kusu 54% hana síðast, en 26-27% kusu VG í síðustu kosningum, 7,5% kusu Viðreisn og um 6% Pírata. Píratar sækja næstum 56% fylgi sitt til fyrrum kjósenda sinna en um 23% kemur frá VG, 9,5% frá Samfylkingu en minna frá öðrum flokkum. Þannig virðist fylgið sem VG hefur tapað frá síðustu kosningum fara fyrst og fremst til þessarra tveggja flokka, Samfylkingar og Pírata.

Miðflokkurinn sækir tæplega 55% af sínu fylgi til þeirra sem kusu flokkinn síðast en um 32% af fylgi flokksins kaus Sjálfstæðisflokk í síðustu kosningum. Af kjósendum Viðreisnar kemur næstum 65% frá fyrrum kjósendum flokksins en rösklega 15% frá Samfylkingu og sitt hvor 8-9% frá Sjálfstæðisflokki og Pírötum.

Svarendur voru 879 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 24.-28. september 2020.

Nánari upplýsingar má finna hjá Þóru Ásgeirsdóttur í síma 578-0125 eða hjá thora@maskina.is.

Aðrar fréttir