Viðhorf til nýrrar stjórnarskrár

Heim / Fréttir / Viðhorf til nýrrar stjórnarskrár

Í nýrri könnun Maskínu er meirihluti (53,5%) hlynntur því að Nýja stjórnarskráin sem Stjórnlagaráð lagði fram verði lögð til grundvallar nýrri stjórnarskrá Íslands, en rösklega 21% er því andvígt.

 

Marktækt hærra hlutfall kvenna en karla er hlynnt en þó meirihluti beggja kynja. Eftir því sem heimilistekjur svarenda hækka þeim mun andvígari eru þeir þessari tilhögun. Þannig eru 65% þeirra sem hafa lægstar tekjur hlynnt því að Nýja stjórnarskráin verði lögð til grundvallar en um 43-44% þeirra sem hafa milljón eða meira í heimilistekjur á mánuði, en það eru eini tekjuhópurinn þar sem ekki er meirihluti fyrir málinu.

Mjög mikill munur er á afstöðu fólks eftir stjórnmálaskoðun. Þannig eru um 85-88% kjósenda Pírata og Samfylkingar hlynnt því að Nýja stjórnarskráin verði lögð til grundvallar stjórnarskrá Íslands, næstum 73% kjósenda Flokks fólksins, um 64-66% kjósenda Viðreisnar og Vinstrihreyfingarinnar-Græns framboðs, um þriðjungur kjósenda Framsóknarflokksins og Miðflokksins en einungis tæplega 16% kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Af þeim sem styðja ríkisstjórnina vilja 38-39% leggja Nýja stjórnarskrá Stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá en næstum 74% þeirra sem ekki styðja ríkisstjórnina.

Tæplega 63% svarenda í könnun Maskínu finnst mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá en tæplega fimmtugur segir það ekki mikilvægt.

Marktækur munur er á kynjunum, konum finnst það mikilvægara en körlum að fá nýja stjórnarskrá, þótt meirihluta beggja kynja finnist það mikilvægt. Eftir því sem tekjur hækka finnst svarendum lítilvægara að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá, eða 73-74% þeirra sem hafa minna en 550 þúsund í heimilistekjur á mánuði. Á hinn bóginn finnst 50-54% þeirra sem hafa milljón eða meira í heimilistekjur á mánuði það mikilvægt og er munurinn marktækur.

Nákvæmlega sama mynstur er í viðhorfi um mikilvægi nýrrar stjórnarskrár og spurningarinnar um Nýju stjórnarskrána þegar niðurstöður eru skoðaðar eftir stjórnmálaskoðun svarenda. Einungis fimmtungi kjósenda Sjálfstæðisflokksins finnst mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá en 82-97% kjósenda Flokks fólksins, Samfylkingar og Pírata. Einnig er mikill munur eftir því hvort svarendur styðja ríkisstjórnina, þannig finnst tæplega helmingi þeirra sem styðja ríkisstjórnina mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá en slétt 81% þeirra sem styðja hana ekki.

Á bilinu 81-82% þeirra sem finnst mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá fyrir Ísland eru hlynnt því að leggja Nýja stjórnarskrá Stjórnlagaráðs til grundvallar. Að sama skapi eru 82-82% þeirra sem telja það lítilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá andvígir því að Nýja stjórnarskrá Stjórnlagaráðs verði lögð til grundvallar.

Svarendur voru 838 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 19.-27. október 2020.

Nánari upplýsingar má finna hjá Þóru Ásgeirsdóttur í síma 896-4427 eða hjá thora@maskina.is.

Aðrar fréttir