HELMINGUR ÍSLENDINGA ÁNÆGÐUR MEÐ SUMARGÖTUR Í REYKJAVÍK

Heim / Fréttir / HELMINGUR ÍSLENDINGA ÁNÆGÐUR MEÐ SUMARGÖTUR Í REYKJAVÍK

Hátt í 52% Íslendinga eru ánægð með sumargötur í Reykjavík en slétt 22% eru óánægð með þær. Spurt var „Hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) ertu með lokun hluta gatna í miðborg Reykjavíkur fyrir bílaumferð á sumrin, eins og hefur verið gert síðustu ár?“ Sömu spurningar var spurt í fyrra og þá voru heldur fleiri ánægðir með sumargöturnar eða slétt 60%.

Konur eru ánægðari með sumargöturnar en karlar. Tæplega 55% kvenna eru ánægð með sumargötur en milli 48% og 49% karla. Þó nokkur munur var á svörum eftir aldri en eftir því sem fólk er yngra er það ánægðara með sumargöturnar. Þannig eru rúmlega 65% þeirra sem eru yngri en 25 ára ánægð með sumargötur en hlutfallið lækkar niður í rúmlega 41% hjá þeim sem eru 55 ára og eldri. Það er athyglisvert að ekki er marktækur munur á skoðunum eftir búsetu þótt Reykvíkingar virðist aðeins ánægðari með sumargöturnar en aðrir.

Töluverður munur er á viðhorfi til sumargatna eftir því hvaða stjórnmálaflokk fólk myndi kjósa í dag. Þannig eru aðeins um 30% kjósenda Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins ánægðir með sumargötur á meðan það er töluvert meiri ánægja meðal kjósenda Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, en á bilinu 61-83% kjósenda þeirra flokka eru ánægð með sumargötur.

Einnig var spurt „Hversu oft sækir þú þjónustu eða verslun í miðborg Reykjavíkur?“ Að meðaltali sækja Íslendingar þjónustu eða verslun í miðborgina 6,14 sinnum í mánuði sem er öllu oftar en í fyrra.

Ekki er munur á viðhorfi til sumargatna eftir því hversu oft fólk sækir þjónustu eða verslun í miðborg Reykjavíkur sem kemur á óvart því í fyrra var meiri ánægja með sumargöturnar eftir því sem fólk sótti oftar þjónustu eða verslun í miðborgina. Ánægja með sumargöturnar hefur minnkað meðal þeirra sem sækja þjónustu eða verslun í miðborgina 1 sinni eða oftar í mánuði. Mesti munurinn millli ára er hjá þeim sem sækja þjónustu eða verslun í miðborgina 2-8 sinnum í mánuði, í fyrra voru milli 71% og 72% þeirra ánægð með sumargöturnar en í ár hefur hlutfallið lækkað niður í tæplega 47%.

Svarendur voru 827 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 9. til 17. maí 2017.


Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir