Fleiri Reykvíkingar ánægðir með borgarstjóra

Heim / Fréttir / Fleiri Reykvíkingar ánægðir með borgarstjóra

Fleiri Reykvíkingar eru ánægðir með störf Dags B. Eggertssonar borgarstjóra en óánægðir, eða 40,5% ánægð en þriðjungur óánægður. Íbúar annarra sveitarfélaga eru óánægðari með störf borgarstjóra Reykjavíkur því innan við fjórðungur er ánægður með störf hans en næstum tveir af hverjum fimm óánægðir. Ánægja með störf Dags er misjöfn eftir hverfum þannig er hún mun meiri vestan Elliðaár en austan. Íbúar í Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsársdal eru minnst ánægðir með störf Dags, en rösklega 22% þeirra eru ánægðir og slétt 46% óánægðir.

Séu viðhorf allra landsmanna rýnd kemur í ljós að konur eru ánægðari með störf Dags en karlar, yngra fólk er ánægðara en þeir sem eldri eru og þeir sem eru með háskólapróf eru ánægðari en þeir sem minni menntun hafa.

Svarendur könnunar voru 868 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 15. til 25 febrúar 2021.

Aðrar fréttir