Fleiri Íslendingar eru óánægðir en ánægðir með frammistöðu allra ráðherra ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Þrír ráðherrar skera sig úr hvað óánægju varðar, en á milli 63% og 66% eru óánægð með störf Benedikts Jóhannessonar fjármála- og efnahagsráðherra, Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra og Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra.
Yfir fjórðungur Íslendinga er ánægður með störf Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra (27,3%), Bjartar Ólafsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra (25,9%) og Þorsteins Víglundssonar félags- og jafnréttismálaráðherra (25,6%) en ánægja með aðra ráðherra er minni.
Almennt hefur ánægja með frammistöðu ráðherranna lækkað frá því í maí sl. vor, en stendur nánast í stað hjá Óttari, Jóni, Guðlaugi Þór og Þorsteini.
Þeir sem segjast myndu kjósa Pírata eru óánægðari en aðrir með störf Bjarna Benediktssonar og Sigríðar Á. Andersen. Þeir sem myndu kjósa Miðflokkinn eru hins vegar óánægðari en aðrir með störf Benedikts Jóhannessonar, Bjartar Ólafsdóttur og Óttars Proppé. Þegar litið er á ánægju með frammistöðu ráðherra meðal fylgjenda þeirra eigin flokka virðast Óttar Proppé heilbrigðisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hafa minnstan stuðning þeirra sem myndu kjósa flokka þeirra. Mest ánægja er hins vegar með störf Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra meðal þeirra sem segjast myndu kjósa flokka þeirra.
Kynjamunur er á viðhorfi til tveggja ráðherra: Konur eru óánægðari með frammistöðu Bjarna Benediktssonar en karlar, en eru ánægðari með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur. Þá eru Reykvíkingar ánægðari en aðrir með frammistöðu Bjartar Ólafsdóttur en óánægðari en aðrir með Sigríði Á. Andersen. Íbúar nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur eru ánægðari en aðrir með tvo ráðherra Sjálfstæðisflokksins, þá Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra. Íbúar annarra sveitarfélaga eru óánægðari en aðrir með tvo ráðherra Viðreisnar, þau Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Þorstein Víglundsson.
Háskólamenntaðir eru ánægðari en aðrir með störf Benedikts Jóhannessonar, Bjartar Ólafsdóttur, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Þorsteins Víglundssonar. Jafnframt eru tekjuhæstu hóparnir, þeir sem hafa fjölskyldutekjur yfir 800 þúsund á mánuði, ánægðari en aðrir með frammistöðu Viðreisnarráðherranna Benedikts Jóhannessonar, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Þorsteins Víglundssonar.
Svarendur voru 852 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Hver svarandi gat svarað spurningum um 6 ráðherra af 11 en tilviljun réð um hvaða ráðherra var spurt hverju sinni. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 25. september til 5. október 2017.