Fleiri Íslendingar eru hlynntir en andvígir því að leggja niður mannanafnanefnd

Heim / Fréttir / Fleiri Íslendingar eru hlynntir en andvígir því að leggja niður mannanafnanefnd

Tæplega 43% Íslendinga, 18 ára og eldri, eru hlynnt því að leggja niður mannanafnanefnd, en um 30% andvíg. Rúmlega 27% eru í meðallagi hlynnt/andvíg.

Þegar niðurstöður eru greindar eftir lýðfræðilegum breytum svarenda má sjá að konur (44,1%) eru aðeins líklegri til að vera hlynntar því að leggja niður mannanafnanefnd en karlar (41,7%).

Því yngri sem svarendur eru, þeim mun líklegri eru þeir til að vera hlynntir því að leggja niður mannanafnanefnd en um helmingur svarenda yngri en fertugt er hlynntur því. Á aldursbilinu 40-59 ára eru fleiri hlynntir heldur en andvígir en í hópnum 60 ára og eldri eru fleiri andvígir heldur en hlynntir.

Meirihluti kjósenda Flokks fólksins, Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata er hlynntur niðurlagningu nefndarinnar. U.þ.b. jafnmargir kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs eru hlynntir og andvígir, en meirihluti Miðflokkskjósenda og Framsóknarmanna er andvígur því að leggja niður mannanafnanefnd,

Svarendur voru 838 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 19.-27. október 2020.

Nánari upplýsingar má finna hjá Þóru Ásgeirsdóttur í síma 896-4427 eða hjá thora@maskina.is.

Aðrar fréttir