Eru hvalveiðar óður til fortíðar eða sjálfsögð nýting á auðlindum?

Heim / Fréttir / Eru hvalveiðar óður til fortíðar eða sjálfsögð nýting á auðlindum?

Hvalveiðar hafa verið nokkuð til umræðu að undanförnu síðan umdeild skýrsla Matvælastofnunar um veiðarnar kom út. Aðeins eitt íslenskt fyrirtæki stundar hvalveiðar og er það að sigla inn í sitt síðasta starfsár samkvæmt núverandi leyfi. Maskína var forvitin að kanna hver afstaða almennings væri til hvalveiða.

Andstaða gagnvart hvalveiðum hefur aukist
Maskína lagði fyrir spurningu um afstöðu til hvalveiða árið 2019 og var þá tæplega þriðjungur svarenda hlynntur veiðunum en ríflega 40% andvíg þeim. Nýjustu niðurstöður sýna að nokkuð hefur dregið úr fjölda þeirra sem eru hlynntir eða um 3 prósentustig en talsvert meiri breytingu er að finna meðal þeirra sem eru andvígir sem nú eru meira en helmingur aðspurðra eða 51%. Töluverðan mun má sjá á viðhorfi kynjanna þar sem karlar eru í meiri mæli  hlynntir hvalveiðum en konur en aðeins um 15% kvenna eru hlynnt  veiðunum á móti rúmlega 40% karla. Þá er andstaðan mest í yngsta hópi svarenda, undir þrítugu, þar sem um tveir af hverjum þremur eru andvígir veiðunum. Nokkuð dregur úr andstöðunni með hækkandi aldri og er hún minnst meðal þeirra sem eru 60 ára og eldri eða um 38%. Kjósendur Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins eru hlynntari hvalveiðum en kjósendur annarra flokka. Mest er andstaðan meðal kjósenda Pírata og Samfylkingarinnar.

Hafa hvalveiðar áhrif á ferðaþjónustu?
Einnig var lögð fyrir spurning um hvort að veiðarnar hefðu jákvæð, neikvæð eða engin áhrif á íslenska ferðaþjónustu. Sáralitlar breytingar voru á þeim niðurstöðum ef borið er saman við árið 2019 en nú voru um 54% á þeirri skoðun að hvalveiðar hefðu neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna en það hlutfall var 51% árið 2019. Þeir sem telja áhrifin jákvæð eru 8% bæði nú og þegar spurt var fyrir fjórum árum.

Ítarlegri niðurstöður er að finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.000, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 11. til 16. maí 2023.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir