Aukin ánægja með frammistöðu ráðherra

Heim / Fréttir / Aukin ánægja með frammistöðu ráðherra

Fleiri Íslendingar eru ánægðir en óánægðir með frammistöðu fimm af ellefu ráðherrum ríkisstjórnar Vinstri-grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þeir ráðherrar eru Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.

Flestir eru ánægðir með frammistöðu Lilju Daggar Alferðsdóttur (67,6%) og fæstir ánægðir með frammistöðu Sigríðar Á. Andersen (13,8%), en Sigríður steig til hliðar stuttu áður en könnunin var lögð fyrir. Mesta óánægjan er með störf Sigríðar Á. Andersen (65,8%) og Bjarna Benediktssonar (51,6%) og minnsta óánægjan er með frammistöðu Lilju Daggar Alfreðsdóttur (9,6%).

Almennt eru fleiri ánægðir með störf ríkisstjórnarinnar nú en í lok árs 2018. Meiri ánægja er með störf allra ráðherranna nú, að utanskilinni Sigríði Á. Andersen. Mesta aukning ánægju er með mennta- og menningarmálaráðherra þótt fólk hafi verið ánægðast með Lilju Dögg í lok árs 2018.

Töluverður munur er á viðhorfi til starfa ráðherra eftir því hvaða flokk svarendur myndu kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag. Þeir sem myndu kjósa Vinstihreyfinguna – grænt framboð eru ánægðastir með þá ráðherra sem koma úr flokknum, auk Lilju Daggar og það sama má segja um kjósendur Sjálfstæðsflokksins og Framsóknarflokksins sem almennt eru ánægðir með störf eigin ráðherra.

Kjósendur Pírata eru óánægðari en aðrir með störf Bjarna Benediktssonar, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, Sigurðar Inga Jóhannssonar og Ásmundar Einars Daðasonar. Þeir sem myndu kjósa Samfylkinguna eru óánægðari en aðrir með störf Sigríðar Á. Andersen, Kristjáns Þórs Júlíussonar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar.

Kynjamunur er á viðhorfi til fjögurra ráðherra: Karlar eru ánægðari með frammistöðu Bjarna Benediktssonar en konur en konur eru ánægðari með frammistöðu Svandísar Svavarsdóttur, Kristjáns Þórs Júlíussonar og Guðmundar Inga Guðbrandssonar.

Háskólamenntaðir eru ánægðari en aðrir með störf Katrínar Jakobsdóttur, Lilju Daggar Alfreðsdóttur og Guðmundar Inga Guðbrandssonar. Jafnframt eru háskólamenntaðir óánægðari en aðrir með störf Sigríðar Á. Andersen.

Svarendur voru 848 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Hver svarandi gat svarað spurningum um 7 ráðherra af 11 en tilviljun réð um hvaða ráðherra var spurt hverju sinni og í hvaða röð ráðherrarnir birtust svarendum. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 15. til 27. mars 2019.

Skýrsluna í PDF formi má nálgast hér.

Aðrar fréttir