Ásmundur Einar nýtur mestrar hylli

Heim / Fréttir / Ásmundur Einar nýtur mestrar hylli

Nú þegar árið er á enda lék Maskínu forvitni á að vita hvaða ráðherrar almenningi þættu hafa staðið sig bæði best og verst það sem af er kjörtímabilinu. Þriðjungur svarenda sagðist ekki geta valið neinn einn sem hafi staðið sig best og fjórðungur gat ekki nefnt neinn sérstakan sem hafði staðið sig verst.

Ásmundur Einar vinsæll
Flestir svarendur völdu Ásmund Einar Daðason sem þann ráðherra sem staðið hafði sig best á kjörtímabilinu eða 13–14% þeirra. Athygli vekur að vinsældir hans ná þvert á flokka. Rétt um 26% kjósenda Framsóknar finnst Ásmundur hafa staðið sig best en til samanburðar eru aðeins rúmlega 16% þess hóps á þeirri skoðun að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, hafi staðið sig best.

Skýrar flokkslínur en þó með undantekningum
Heilt yfir eru mun skýrari flokkslínur að finna í stuðningi við aðra ráðherra og er hann alla jafna mestur meðal kjósenda þess flokks sem viðkomandi ráðherra situr á þingi fyrir. Þó eru tvær nokkuð áhugaverðar undantekningar á því og á það við um ráðherra Sjálfstæðisflokksins í báðum tilvikum. Annars vegar er það Þórdís Kolbrún, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, en kjósendur Viðreisnar eru mun hrifnari af henni en kjósendur annarra flokka og voru um 35% þeirra sem sögðu hana hafa staðið sig best. Hins vegar er það Jón Gunnarsson sem nýtur mikillar hylli meðal kjósenda Miðflokksins, en 37–38% þeirra sögðu að hann hefði staðið sig best.

Flestum þykir Bjarni hafi staðið sig verst
Þegar spurt var um hvaða ráðherra hefði staðið sig verst á yfirstandandi kjörtímabili má segja að tveir ráðherrar Sjálfstæðisflokks hafi skorið sig úr en tæplega 27% svarenda sögðu það vera Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins. Á hæla hans kemur svo Jón Gunnarsson en ríflega 16% svarenda sögðu hann hafa staðið sig verst. Aftur á móti voru rúmlega 6% svarenda sem sögðu annað hvort Bjarna eða Jón hafa staðið sig best á kjörtímabilinu svo greinilega eru á þessu skiptar skoðanir.

Neðst á myndinni hér að neðan er að finna samtalstölur fyrir ráðherra hvers ríkisstjórnarflokks fyrir sig. Hafa skal í huga að fjöldi ráðherra hvers flokks er ekki sá sami og því áhugavert að skoða jafnframt meðaltal ráðherra hvers ríkisstjórnarflokks fyrir sig. Þá kemur í ljós að ráðherrar Framsóknar hafa vinninginn þegar kemur að ráðherrum sem almenningi þyki standa sig best þar sem meðaltal þeirra er 6,3%. Næst koma ráðherrar Sjálfstæðisflokksins með meðaltal upp á 5,5% og að lokum ráðherrar VG með 4,5%. Það má segja að Framsóknarmenn hafi einnig vinninginn þegar meðaltal þeirra ráðherra sem staðið sig hafa verst að mati almennings er skoðað en þar reka þeir lestina með meðaltalið 3,0%, næst koma VG með 4,8% en Sjálfstæðisflokkurinn sker sig úr með að meðaltali 9,7% á hvern ráðherra.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 967, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 16. til 20. desember 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir