Aldrei fleiri neikvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum eins og nú

Heim / Fréttir / Aldrei fleiri neikvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum eins og nú

Maskína hefur frá árinu 2015 spurt um viðhorf landsmanna til erlendra ferðamanna.  Svo virðist sem neikvæð umfjöllun sé farin að ná til landsmanna en aldrei áður hefur mælst jafn hátt hlutfall neikvæðra.

Neikvæðum fór fækkandi þar til í ár en meirihluti áfram jákvæður

Þeir sem eru neikvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum á Íslandi hafði farið hægt og rólega fækkandi frá árunum 2016 þar til í ár. Mælingar náðu sögulegu lágmarki árið 2022 en þá mældist hlutfall neikvæðra aðeins 6,4%. Nú í ár mælist hlutfall neikvæðra 14,2% og hefur það aldrei verið hærra. Það hækkar um nær 8% milli ára.

Ekki má samt gleyma að enn er meirihluti landsmanna jákvæður gagnvart erlendum ferðamönnum á Íslandi eða 61,2%. Kjósendur Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins eru jákvæðastir, 69-75%, á meðan kjósendur Miðflokksins og Sósíalistaflokksins eru minnst jákvæð, milli 42- 45%.

Ítarlegri niðurstöður er að finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 2.430, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 6. til 28. júlí 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir