Á bilinu 56-57% eru hlynnt því að taka á móti flóttamönnum frá Sýrlandi

Heim / Fréttir / Á bilinu 56-57% eru hlynnt því að taka á móti flóttamönnum frá Sýrlandi

Á bilinu 56-57% svarenda eru hlynnt því að Ísland taki við flóttamönnum frá Sýrlandi á næstu mánuðum en um 22% eru hins vegar andvíg því. Hér er reiknað meðaltal á fimm punkta kvarða þar sem valmöguleikinn „Mjög hlynnt(ur)“ fær gildið 5 en valmöguleikinn „Mjög andvíg(ur)“ fær gildið 1. Meðaltalið er 3,63 sem þýðir að meðaltalið liggi á milli „Í meðallagi“ og „Fremur hlynnt(ur)“.

Þegar svör þátttakenda eru skoðuð eftir bakgrunni þeirra sést meðal annars að konur eru mun hlynntari því en karlar að taka á móti flóttamönnum frá Sýrlandi, yngri svarendur eru mun hlynntari því en þeir sem eldri eru, Reykvíkingar eru mun hlynntari því en aðrir, þeir sem hafa lokið háskólaprófi eru hlynntari því en þeir sem hafa styttri skólagöngu að baki og þeir sem hafa litlar eða engar áhyggjur af fjölda innflytjenda á Íslandi eru hlynntari en þeir sem hafa einhverjar áhyggjur.

Þá er verulegur munur á svörum fólks eftir því hvaða stjórnmálaflokk það styður. Kjósendur Vinstri grænna eru hlynntastir því að Ísland taki við flóttamönnum frá Sýrlandi, eða yfir 70% en 66-68% kjósenda Samfylkingar og Pírata eru því hlynntir. Einungis um 22% kjósenda Framsóknarflokksins eru hlynnt því að við tökum á móti sýrlenskum flóttamönnum, um 38% kjósenda Sjálfstæðisflokksins og næstum þrír af hverjum fimm kjósendum Bjartrar framtíðar. Meðaltalið er þó hæst hjá kjósendum Vinstri Grænna og Samfylkingarinnar þar sem fáir taka afstöðu gegn því að við tökum á móti flóttafólki frá Sýrlandi.

 

Einn af hverjum fjórum vill ekki taka á móti neinum flóttamönnum frá Sýrlandi

Einn af hverjum fjórum svarendum vill ekki taka á móti neinum flóttamönnum frá Sýrlandi á næstu tveimur árum, en álíka stór hópur vill taka á móti 100 flóttamönnum eða færri. Ef horft er til miðgildisins má segja að Íslendingar vilji að jafnaði taka við 100 flóttamönnum frá Sýrlandi. Meðaltalið er töluvert hærra en miðgildið þar sem nokkur hluti svarenda nefndi mjög háar tölur og því er meðaltalið ekki lýsandi fyrir vilja landsmanna.

Á næstu síðum sést að fólk sem er 35 ára og eldra er líklegra en fólk yngra en 35 ára til að vilja ekki taka á móti neinum flóttamönnum og aftur er munur á kjósendum stjórnmálaflokkanna áberandi. Sjá má að á bilinu 42-46% kjósenda stjórnarflokkanna vilja ekki taka á móti neinum flóttamönnum en innan við 10% kjósenda Samfylkingar og Vinstri grænna.

 

Slétt 45% svarenda hefur litlar eða engar áhyggjur af fjölda innflytjenda

Fleiri en þrír af hverjum tíu hafa miklar áhyggjur af því að fjöldi innflytjenda verði of mikill á Íslandi en 13-14% hafa alls engar áhyggjur af því. Samanlagt eru það 45% sem segjast hafa litlar eða engar áhyggjur.
Reiknað er meðaltal þar sem mjög miklar áhyggjur fá gildið 5 en mjög litlar og alls engar áhyggjur fá gildið 1. Meðaltalið er 2,74 sem þýðir að það liggur milli „fremur litlar“ og „í meðallagi“.

Karlar hafa meiri áhyggjur en konur (hærra meðaltal karla), fólk sem er 35 ára og eldra hefur meiri áhyggjur en fólk yngra en 35 ára, íbúar af landsbyggðinni hafa meiri áhyggjur en höfuðborgarbúar og þeir sem hafa aðeins lokið grunnskólaprófi hafa mun meiri áhyggjur en þeir sem hafa lokið meiri menntun. Þá hafa kjósendur stjórnarflokkanna mun meiri áhyggjur en kjósendur annarra flokka, en vel yfir helmingur kjósenda stjórnarflokkanna hefur miklar áhyggjur af því að fjöldi innflytjenda verði of mikill á Íslandi.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar fréttir