Á að bólusetja börn?

Heim / Fréttir / Á að bólusetja börn?

Talsverð umræða hefur skapast í íslensku samfélagi um bólusetningu og sitt sýnist hverjum. Í janúar spurði Maskína um viðhorf almennings til bólusetningar barna, 5–11 ára, gegn COVID-19. Niðurstöðurnar voru mjög afgerandi og sögðust rétt tæplega 75% vera hlynnt bólusetningu en aðeins um 11% voru andvíg.

Eldri svarendur hlynntari bólusetningum

Eftir því sem svarendur voru eldri því hlynntari voru þeir bólusetningu barna á þessum aldri. Í elsta svarhópnum, 60 ára og eldri, sögðust 86% svarenda vera hlynnt en til samanburðar voru 62% hlynnt bólusetningu barna í yngsta hópi svarenda, 18–29 ára.

Þegar svörin voru rýnd eftir stjórnmálaskoðun fólks kemur í ljós að kjósendur Vinstri grænna, Pírata, Samfylkingar og Sósíalistaflokksins eru hlynntastir bólusetningu barna.

Ítarlegri niðurstöður má finna hér í pdf skýrslu.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 902 talsins. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 6. til 17. janúar 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningu um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er, sem sé frá Maskínu.

Aðrar fréttir