Á bilinu 43-44% Íslendinga á aldrinum 18 til 75 ára segja það öruggt að þeir fari ekki á leik hjá íslenska landsliðinu á heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu (HM) í Rússlandi 2018. Þá segja um 38% það ólíklegt að þeir fari. Færri en 1% Íslendinga segja öruggt að þeir fari á HM 2018, en það eru um 1.400 Íslendingar á umræddum aldri (95% öryggisbil nær frá 400 til 2.500). Á milli 3% og 4% telja það mjög líklegt að þeir fari og um 6% nokkuð líklegt. Rúmlega 8% Íslendinga telja það í meðallagi líklegt að þeir fari á HM 2018.
Karlar eru líklegri en konur til að fara á HM 2018 og eftir því sem fólk er yngra þá er það einnig líklegra til að fara. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu, Vesturlandi og Vestfjörðum eru líklegri til að fara en aðrir Íslendingar. Munur er á svörum eftir fjölskyldutekjum en eftir því sem þær eru hærri þeim mun líklegra er fólk til að fara á HM fyrir utan lægsta tekjuhópinn (undir 400 þúsund), en sá hópur er líklegri til að fara á HM 2018 heldur en þeir sem hafa 400 til 549 þúsund. Fráskildir og ekkjur/eklar eru ólíklegri til að fara á HM 2018 heldur en aðrir. Þeir sem búa á heimili með fullorðnum og 1-2 börnum eru líklegri til að fara heldur en þeir sem búa á barnlausum heimilum. Þá er einnig munur á svörum eftir stjórnmálaskoðun, en kjósendur Viðreisnar, Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingunnar eru líklegri til að fara á HM heldur en aðrir.
Þeir sem sögðu að það væri líklegt eða öruggt að þeir færu ekki á HM 2018 voru spurðir hvers vegna það væri. Algengasta ástæðan var áhugaleysi, sem slétt 39% nefndu, og þar á eftir kostnaður en á milli 33% og 34% nefndu það. Meðal þeirra sem sögðu það öruggt að þeir færu ekki á HM 2018 er áhugaleysi algengasta ástæðan en meðal þeirra sem sögðu það ólíklegt að þeir færu er kostnaður algengasta ástæðan.
Svarendur voru 836 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Spurt var „Hversu líklegt eða ólíklegt er að þú farir á leik íslenska landsliðsins á heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu (HM) í Rússlandi 2018?“ og 99,8% svarenda tóku afstöðu til spurningarinnar. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 13. október til 23. október 2017.