Milli 60% og 61% Íslendinga segja heimilisstörf skiptast jafnt milli maka á heimilum sínum. Karlar eru þó líklegri til að telja skiptinguna vera jafna, en á bilinu 67-68% telja svo vera. Hins vegar segja 50-51% kvenna að heimilisstörfin skiptist jafnt á heimilinu. Konur eru mun líklegri en karlar til að telja sig sinna heimilisstörfum að mestu leyti, eða tæp 39% á móti rúmum 4% karla. Milli 21% og 22% karla viðurkenna að makar sínir sjái að mestu leyti um heimilisstörfin. Konur sem sögðu mæður sínar hafa séð um flest heimilisstörf þegar þær voru að alast upp voru líklegri en aðrar konur til að sjá sjálfar um þau á sínu heimili. Karlar sem ólust upp á heimilum þar sem samvinna var um heimilisstörf eru einnig líklegri en aðrir karlar til að viðhalda þeirri hefð.
Aldurshópurinn 50-59 ára var síst líklegur til að segja heimilisstörf skiptast jafnt milli sín og maka síns, eða um 52%. Talsvert hærra hlutfall fólks á aldrinum 18-29, eða tæplega 65%, hafði jafna skiptingu. Þeir sem höfðu hæstar heimilistekjur, þ.e.a.s. 1 milljón eða hærri, voru líklegastir til að skipta heimilistörfum jafnt, eða á bilinu 63-64%. Hátt í 65% þeirra sem hafa háskólapróf sögðu heimilisstörf skiptast jafnt milli maka en hlutfallið var lægra meðal þeirra sem höfðu grunn- og framhaldsskólapróf.
Þeir sem sögðust myndu kjósa Pírata voru líklegastir til að segja heimilisstörf skiptast jafnt milli maka, eða rúmlega 74%. Minnst samvinna var um heimilisstörf meðal þeirra sem sögðust myndu kjósa Viðreisn eða Sjálfstæðisflokk, eða á bilinu 52-55%. Karlar voru líklegastir til að segja maka sinn að mestu sjá um heimilisstörf ef þeir sögðust myndu kjósa Viðreisn, eða um 35%, og næst líklegastir ef þeir sögðust kjósa Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk – yfir 29%. Karlar sem myndu kjósa Pírata voru lang síst á þeirri skoðun að maki þeirra sæi að mestu um heimillistörfin, eða tæplega 9%. Meðal kvenna var ekki marktækur munur á þessu eftir stjórnmálaskoðunum.
Þau heimilisstörf sem mest samvinna er um milli kynja eru að ryksuga eða sópa gólf, en um 64% kvenna og tæp 61% karla sinna því. Mestur kynjamunur er hins vegar á þátttöku fólks í að setja í eða taka föt úr þvottavél og að brjóta þau saman eftir þvott, en yfir 78% kvenna og 31-36% karla segjast sinna því á sínum heimilum.
Þeir sem sögðust myndu kjósa Bjarta framtíð eru líklegastir til að ganga frá eftir máltíðir, þeir sem styðja Sjálfstæðisflokk eru iðnastir við að ryksuga eða sópa gólf, en þeir sem styðja Vinstri græna eru hrifnastir af því að setja í eða taka úr þvottavél. Þá virðist þeim sem myndu kjósa Viðreisn vera verr við að setja í eða taka föt úr þvottavél og brjóta þau saman en þeim sem styðja aðra flokka.
Svarendur voru 1513 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 31. ágúst til 11. september 2017.