Borgarviti Maskínu er fremur nýr á nálinni og inniheldur spurningar sem snúa að störfum borgarstjórnar Reykjavíkur. Þetta er í annað sinn sem við birtum niðurstöður úr Borgarvitanum, en hann verður birtur næst í haust.
Vinsældir Dags dragast saman
Það var strax ljóst þegar núverandi flokkar mynduðu meirihluta í borginni að Dagur, sem gegndi embætti borgarstjóra allt síðasta kjörtímabil, myndi hverfa á braut úr þeim stóli þegar liði á kjörtímabilið og Einar Þorsteinsson koma í hans stað. Ánægja með störf Dags hefur verið talsverð en mikið hefur dregið úr henni samkvæmt síðustu tveimur könnunum Maskínu en þá fyrst voru fleiri óánægðir með störf hans en ánægðir. Niðurstöður úr þessum Borgarvita sýna að aldrei hafa fleiri verið óánægðir með störf Dags og að sama skapi aldrei færri ánægðir eða innan við fjórðungur aðspurðra.
Ólíkt viðhorf eftir búsetu
Mikill breytileiki á viðhorfi fólks er til starfa borgarstjóra eftir búsetu þess. Mest er ánægjan með Dag meðal íbúa í miðbæ Reykjavíkur, Vesturbænum auk íbúa í Hlíðum, Laugardal, Háaleiti og Bústaðahverfi en um þriðjungur þeirra er ánægður með störf hans. Sömu sögu er ekki segja af íbúum austan Elliðaáa þar sem óánægjan er mun meiri. Þar eru innan við 15% ánægð með störf hans en um tveir þriðju hlutar þeirra er óánægðir með störf borgarstjóra.
Við munum halda áfram að fjalla um niðurstöður Borgarvita Maskínu á næstu dögum.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.083, en þeir eru á aldrinum 18 ára og eldri og búsettir í Reykjavík. Könnunin fór fram 16. – 21. mars og 13. – 21. apríl 2023.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar til helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er