Maskína mælir fylgi flokkanna sem bjóða fram á landsvísu mánaðarlega og samkvæmt tölum nóvembermánaðar 2022 verða talsverðar breytingar.
Meðbyr með nýjum formanni Samfylkingarinnar
Það er gleðilegt fyrir nýkjörinn formann Samfylkingarinnar að upplifa slíkan meðbyr í fyrstu mælingu eftir að hún tók við embætti. Slétt 19% svarenda í þessari Maskínukönnun segjast myndu kjósa flokkinn ef gengið væri til kosninga í dag. Þetta er aukning upp á 5–6 prósentustig á milli mælinga. Samfylkingin mælist nú næst stærsti flokkurinn á landsvísu og greina innan við 3 prósentustig flokkinn frá Sjálfstæðisflokknum sem er enn stærstur. Hann gefur örlítið eftir frá Maskínukönnun í októbermánuði þegar flokkurinn var með hartnær 23% sem er þó vel innan skekkjumarka.
Fylgi Framsóknar og VG nánast óbreytt
Afar litlar breytingar er að sjá á fylgi hinna tveggja ríkisstjórnarflokkanna, Framsóknar og VG. Fylgi Framsóknar er áfram rétt um 15% en VG með rétt um 7%. Miðað við þessar tölur hefur flokkur forsætisráðherra týnt 5–6prósentustigum af fylgi sínu á því sem af er kjörtímabilinu samanborið við árangur flokksins í síðustu kosningum.
Fylgi Viðreisnar helst áfram stöðugt en Píratar dala örlítið
Viðreisn hefur samkvæmt þessari könnun 9% fylgi sem er afar sambærilegt og flokkurinn hefur mælst með að undanförnu. Fylgi Pírata hefur dregist örlítið saman frá því í síðasta mánuði og er samkvæmt þessari Maskínukönnun er fylgi þeirra 13–14%.
Sósalistar, Miðflokkur og Flokkur fólksins á svipuðum slóðum og fyrr
Samkvæmt nóvemberkönnun Maskínu hafa Sósíalistar, Miðflokkur og Flokkur fólksins um 5% fylgi. Það er mjög sambærilegt fylgi og bæði Miðflokkur og Flokkur fólksins mældust með í Maskínukönnunum fyrri mánaða en Sósíalistaflokkurinn mælist litlu minni en í októbermánuði þegar hann var með 6-7% fylgi.
Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna er með minnsta móti
Samanlagt fylgi þeirra þriggja flokka sem mynda núverandi ríkisstjórn, þ.e. VG, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins er núna hartnær 44% og hefur aðeins einu sinni verið minna á kjörtímabilinu. Það var í maí á þessu ári þegar samanlagt fylgi þeirra mældist rétt ríflega 42%.
Ítarlegri niðurstöður er að finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 2.483, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 4. til 22. nóvember 2022.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.