Mikil umræða hefur skapast í íslensku samfélagi um hryðjuverkaógnir á undanförnum dögum. Maskína spurði því almenning hvort hann telji líklegt að hryðjuverk yrðu framin hérlendis. Niðurstöðurnar eru býsna áhugaverðar og í þeim kemur fram að viðhorf almennings til þessa hefur tekið talsverðum breytingum frá fyrri mælingu Maskínu árið 2017.
Talsverðar breytingar á viðhorfi frá árinu 2017
Maskína bar upp sömu spurning árið 2017 en þá töldu innan við 8% aðspurðra líklegt að mannskæð hryðjuverk yrðu framin hér á landi. Núna er hins vegar annað upp á teningunum þegar ríflega fjórðungur svarenda (26–27%) segja það líklegt. Þá hefur sömuleiðis orðið mikil breyting á fjölda þeirra sem telja það ólíklegt en árið 2017 voru 76–77% aðspurðra á þeirri skoðun en í ár eru það um 45%.
Maskína spurði einnig um hversu oft fólk hugsaði um að hryðjuverk verði framin á Íslandi og eru þær niðurstöður mjög áþekkar niðurstöðunum árið 2017. Rúmlega fjórðungur segist aldrei hugsa um það og um 50% sjaldan. Innan við 4% segjast hugsa oft um það.
Ítarlegri niðurstöður er að finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.176, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 23. til 27. september 2022.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.