Hver er uppáhaldssundlaug landsmanna?

Heim / Fréttir / Hver er uppáhaldssundlaug landsmanna?

Allt frá landnámi hafa Íslendingar verið þekktir fyrir að baða sig í heitum laugum. Víða um land er að finna náttúrulaugar og til eru heimildir allt frá tólftu öld um slíkar laugar sbr. Snorralaug. Í dag hafa verið smíðaðar sundlaugar í nánast hverju bæjarfélagi hringinn í kringum landið og þar er bekkurinn eða potturinn oft þétt setinn. Margir benda á að það sé ekki einungis gott fyrir líkama og sál að heimsækja sundlaugar heldur þjóni þær einnig félagslegum tilgangi enda eru málefni líðandi stundar gjarnan krufin til mergjar í heita pottinum. Í ljósi þess hversu vænt okkur Íslendingum þykir um sundlaugarnar okkar og þá menningu sem þeim fylgir ákvað Maskína að spyrja landsmenn hver væri þeirra uppáhaldssundlaug – og svörin létu svo sannarlega ekki á sér standa!

Fjögur sveitarfélög deildu með sér 5 efstu laugunum
Svarendur í könnuninni voru 2.149 og alls fengu 18 sundlaugar 30 atkvæði eða fleiri í opinni spurningu en tæplega 12% svarenda átti sér enga uppáhaldssundlaug. Sundlaugarnar á toppnum eru í Reykjavík, Mosfellsbæ, Kópavogi og á Akureyri svo dreifingin var býsna góð. Með 6-7% atkvæða voru jafnar Laugardalsdalslaug og Árbæjarlaug og skipuðu þær sér í 4. og 5. sæti, en báðar eru í Reykjavík. Með rétt um 7% kemur svo Lágafellslaug í Mosfellsbæ í 3. sæti og skör ofar með 7-8% er Sundlaug Kópavogs.

Sundlaug Akureyrar í mestu uppáhaldi
Tæp 10% aðspurðra nefndu Sundlaug Akureyrar sem sína uppáhaldssundlaug. Rúmlega tvö prósentustig skilur Sundlaug Akureyrar frá Sundlaug Kópavogs. Það er meiri munur en á milli annarra lauga svo það má segja að Sundlaug Akureyrar sé ótvíræður sigurvegari.

Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 2.149, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 19. til 24. ágúst 2022.

Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.

Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.

Aðrar fréttir