Síðastliðið ár eða svo hefur fréttaflutningur um skotvopnaárásir á Íslandi færst í aukana. Í marsmánuði athugaði Maskína hversu miklar eða litlar áhyggjur Íslendingar höfðu af skotvopnaeign á Íslandi. Í ljós kom að 47-48% höfðu miklar áhyggjur af skotvopnaeign en þar af höfðu um 20% mjög miklar áhyggjur. Þetta er töluverð aukning frá síðustu mælingu sem var framkvæmd árið 2021 en þá kváðust 32-33% hafa miklar áhyggjur af skotvopnaeign. Þá kváðust tæp 49% hafa litlar áhyggjur af skotvopnaeign árið 2021, samanborið við 28-29% nú.
Konur reyndust töluvert líklegri en karlar til að hafa miklar áhyggjur af skotvopnaeign eða 64-65% þeirra samanborið við um 32% karla. Þá var töluverður munur á afstöðu eftir aldri þar sem áhyggjurnar jukust með hækkandi aldri.
Tiltölulega lítill munur reyndist á afstöðu eftir pólitískum skoðunum. Kjósendur Sósíalista, Vinstri grænna og Flokks fólksins voru þó ívið líklegri en kjósendur annara flokka til að hafa miklar áhyggjur af skotvopnaeign.
Hátt í 20% Íslendinga hafa aðgang að skotvopnum
Maskína spurði jafnframt um aðgengi að skotvopnum. Sögðust 18-19% hafa sjálf aðgang að skotvopnum sem er svipað hlutfall og árið 2021 þegar rúmlega 17% sögðust hafa aðgang að skotvopnum.
Athyglisvert er að þau sem ekki höfðu sjálf aðgang að skotvopnum voru mun líklegri en þau sem höfðu aðgang að skotvopnum til að hafa miklar áhyggjur af skotvopnaeign. Af þeim sem höfðu aðgang að skotvopnum kváðust 22% hafa miklar áhyggjur, samanborið við rétt rúm 53% þeirra sem ekki höfðu aðgang að skotvopnum.
Hærra hlutfall karla en kvenna hafði aðgang að skotvopnum eða 28-29% karla samanborið við um 8% kvenna. Þá var aðgengi að skotvopnum algengara með auknum aldri og var aðgengi að skotvopnum jafnframt meira hjá þeim sem voru búsettir á landsbyggðinni heldur en hjá höfuðborgarbúum.
Ítarlegri niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 978, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 4. til 9. mars 2022.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.