Orkuskiptin hafa verið mikið til umræðu á undaförnum misserum og sitt sýnist hverjum. Sjónarmiðum um að til að hægt sé að fara af fullum þunga í orkuskipti á Íslandi og að virkja meira hafa heyrst í samfélaginu á meðan aðrir halda því fram að mikilvægara sé að forgangsraða og nýta betur þá orku sem nú þegar er framleidd á Íslandi. Annars vegar er talað um glötuð atvinnutækifæri en hins vegar mikilvægi lífríkis og óspilltrar náttúru. Hérlendis hafa náttúruöflin verið virkjuð á ýmsa vegu til að framleiða orku. Maskína spurði því almenning um viðhorf hans til ólíkra virkjanamöguleika. Spurt var um vindmyllur, jarðhitavirkjanir, sjávarfallavirkjanir og vatnsaflsvirkjanir.
Konur og íbúar höfuðborgarsvæðisins
Það var sammerkt með öllum tegundum virkjana sem spurt var um að umtalsverður munur var á viðhorfi kynjanna og konur almennt andvígari þeim en karlar. Þegar viðhorfið var skoðað út frá búsetu fólks, hvort það býr á landsbyggðinni eða höfuðborgarsvæðinu, sést að fleiri landsbyggðarbúar eru hlynntir öllum tegundum virkjana sem spurt var um en höfuðborgarbúar.
Virkjanir jarðhita og sjávarfalla mælast best fyrir
Af þeim fjórum virkjanamöguleikum sem spurt voru flestir hlynntir jarðhitavirkjunum en alls sögðust 76-77% aðspurðra hlynnt slíkum virkjunum og aðeins um 3% andvíg þeim. Svipað var uppi á teningnum þegar spurt var að viðhorf til virkjana á sjávarföllum en tæplega 72% svarenda sögðust hlynnt þeim og aðeins um 4% andvíg þeim.
Mestur munur á viðhorfi íbúa höfuðborgarsvæðis og landbyggðar til vatnsaflsvirkjana
Í niðurstöðunum um vatnsaflsvirkjanir kemur fram mesti munurinn á milli viðhorfi höfuðborgarbúa og landsbyggðarbúa. Sá munur reyndist rúmlega 10 prósentustig. Alls sögðust 67-68% aðspurðra hlynnt vatnsaflsvirkjunum.
Vindmyllurnar mælast síst fyrir meðal almennings
Af þeim tegundum sem spurt var um sögðust fæstir hlynntir vindmyllum samanborið við hinar virkjanirnar. Þó voru rétt tæp 59% hlynnt þeim. Dálítill munur var á skoðun svarenda eftir búsetu og voru íbúar landsbyggðarinnar örlítið hlynntari vindmyllum en íbúar höfuðborgarsvæðisins.
Ítarlegar niðurstöður má finna í pdf-skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 1.109, en þeir eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 17. til 23. mars 2022.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.