Í kjölfar Alþingiskosninganna í lok september spurði Maskína almenning hversu vel eða illa hann treysti niðurstöðum kosninganna. Niðurstöðurnar sýna að tæplega fjórðungur aðspurðra sagðist treysta niðurstöðum kosninganna illa en ríflega 60% sagðist treysta þeim vel.
Karlar treysta niðurstöðum kosninga betur en konur og þeir sem eldri eru treysta niðurstöðunum frekar en þeir sem yngri eru. Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir því hvaða flokk fólk kaus í kosningunum í september koma fram mjög skýrar línur. Kjósendur Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Miðflokks treysta kosningunni best en kjósendur Pírata og Sósíalistaflokksins treysta kosningunni síst.
Þegar niðurstöðurnar eru rýndar eftir því í hvaða kjördæmi fólk kýs kemur fram að þeir sem kjósa í Norðvesturkjördæmi treysta niðurstöðunum næst best allra kjördæma, sem er áhugavert í ljósi umræðna um mistök við talningu í einmitt því kjördæmi. Kjósendur í Reykjavík norður og Suðurkjördæmi treystu niðurstöðum kosninga síst.
Ítarlegri niðurstöður má sjá í pdf skýrslu hér.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Alls voru svarendur 946 talsins. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 27. september til 7. október 2021.
Í spurningavögnum Maskínu, sem lagðar eru fyrir almenning reglulega, er að finna spurningar um málefni líðandi stundar. Þessar spurningar eru samdar af starfsfólki Maskínu. Niðurstöður eru birtar á heimasíðu Maskínu og einnig sendar á helstu fjölmiðla landsins. Maskína birtir ekki fréttir upp úr könnunum sem unnar eru fyrir aðra eða eru kostaðar af öðrum né sendir út fréttatilkynningar um niðurstöður þeirra.
Notkun á efni af heimasíðu Maskínu er heimil svo fremi sem vísað sé til heimilda og þess sé getið skýrt hver uppruni gagnanna er.