Fólk telur að það sé auðvelt fyrir ungt fólk að ná sér í vímuefni

Heim / Fréttir / Fólk telur að það sé auðvelt fyrir ungt fólk að ná sér í vímuefni

Rösklega 94% landsmanna telur að það sé auðvelt fyrir ungt fólk að verða sér úti um vímuefni og tæplega 80% telja að auðvelt sé að ná í lyfseðilsskyld lyf til að komast í vímu. Þar af telja 58% að það sé mjög auðvelt fyrir ungt fólk að verða sér úti um vímuefni en um þriðjungur að það sé mjög auðvelt að ná í lyfseðilsskyld lyf. Enginn telur að það sé mjög erfitt að ná í vímuefni og innan við hálft prósent að það sé mjög erfitt að ná í lyfseðilsskyld lyf.

 

Konur telja í meiri mæli en karlar að það sé mjög auðvelt fyrir ungt fólk að verða sér hvorutveggja úti um vímuefni og lyfseðilsskyld lyf til að komast í vímu.
Næstum 42% þeirra sem eru 18-29 ára telja að það sé mjög auðvelt fyrir ungt fólk að ná í lyfseðilsskyld lyf en eftir því sem fólk eldist telur það að erfiðara sé að ná sér í slík lyf. Þó ber að taka fram að mikill meirihluti í öllum aldurshópum telur að það sé auðvelt að ná í lyfseðilsskyld lyf til að komast í vímu.
Minni munur er á aldurshópunum þegar spurt er um vímuefni. Næstum 65% þeirra sem eru 18-29 ára telja að það sé mjög auðvelt að ná í vímuefni en 52-61% annarra aldurshópa.
Þeir sem þekkja einhvern í nærumhverfi sínu sem hefur orðið háður vímuefnum eru líklegri en aðrir til að telja að mjög auðvelt sé að ná í bæði vímuefni og lyfseðilsskyld lyf til að komast í vímu.

MEIRA EN HELMINGUR LANDSMANNA ÞEKKIR EINHVERN Í SÍNU NÆRUMHVERFI SEM HEFUR ORÐIÐ HÁÐUR VÍMUEFNUM
Næstum 52% landsmanna segjast þekkja einhvern undir lögaldri í sínu nærumhverfi sem hefur orðið háður vímuefnum, öðru en áfengi. Þar af eru hátt í 40% sem þekkja fleiri en einn.

Það er áberandi hve oft þeir yngstu segjast þekkja marga, eða tæplega 12% þeirra á móti 2-3% þeirra sem eru 30 ára og eldri.
Konur segjast oftar þekkja einhvern en karlar og þeir sem búa utan höfuðborgarsvæðisins segjast einnig oftar þekkja einhvern en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Þá þekkja 10,5% þeirra sem prófað hafa eða neytt vímuefna marga sem hafa orðið háðir vímuefnum á unga aldri. Þetta er einnig hópurinn sem þekkir einhvern sem hefur orðið háður vímuefnum, eða hátt í sex af hverjum tíu.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Við úrvinnslu voru gögnin vegin til samræmis við tölur Hagstofunnar þannig að hópurinn sem svarar endurspeglar þjóðina út frá kyni, aldri og búsetu.
Könnunin fór fram dagana 19. til 28. ágúst 2019, en henni lauk áður en herferðinni Vaknaðu, þú átt bara eitt líf, var ýtt úr vör. Svarendur voru 897 talsins.

Smelltu hér til að skoða niðurstöðurnar

Aðrar fréttir