Rúmlega 28% Íslendinga flugu oft með WOW Air á meðan á rekstri flugfélagsins stóð, en rúmlega 17% flugu aldrei með flugfélaginu.
Konur flugu oftar með WOW Air en karlar. Tæplega 31% kvenna flugu oft með flugfélaginu, samanborið við milli 25-26% karla.
Ungt fólk flaug frekar með WOW Air en eldra. Á bilinu 35-36% Íslendinga á aldrinum 18 til 29 ára flugu oft með WOW Air en tæplega 18% Íslendinga 60 ára og eldri.
Mikill meirihluti Íslendinga býst við því að brotthvarf WOW Air af markaði komi til með að hafa mikil áhrif á verð á flugmiðum til og frá landinu. Tæplega 28% telja að brotthvarf flugfélagsins muni hafa mjög mikil áhrif á verðlag flugmiða og enn fleiri telja að það komi til með að hafa fremur mikil áhrif (37,6%). Rúmlega 11% Íslendinga spá því að brotthvarf WOW Air muni hafa lítil áhrif á verðið.
Konur telja að brotthvarf WOW Air muni hafa meiri áhrif á verð á flugmiðum en karlar. Tæplega 69% kvenna telja það en rúmlega 62% karla.
Því yngri sem Íslendingar eru þeim mun meiri áhrif telja þeir að brotthvarf WOW Air af markaði hafi á verðlag á flugmiðum. Flestir á aldrinum 18 til 29 ára telja áhrifin af brotthvarfi flugfélagsins vera mikil (74,5%) en færri á aldrinum 60 ára og eldri (55,6%).
Íslendingar sem flugu oft með WOW Air telja að áhrifin af brotthvarfi flugfélagsins vera töluvert meiri en þeir sem flugu sjaldan eða aldrei með því. Á bilinu 82- 83% þeirra sem flugu oft með WOW Air telja að brotthvarf þeirra komi til með að hafa mikil áhrif á verðlag en rúmlega 53% þeirra sem flugu sjaldan eða aldrei með flugfélaginu.
Svarendur voru 889 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 29. mars til 9. apríl 2019.