Um helmingur Íslendinga hlynntur því að Ágúst Ólafur segi af sér

Heim / Fréttir / Um helmingur Íslendinga hlynntur því að Ágúst Ólafur segi af sér

Á bilinu 51-52% Íslendinga eru hlynnt afsögn Ágústs Ólafs Ágústssonar, alþingismanns. Þá eru á milli 31% og 32% í meðallagi hlynnt/andvíg og um 17% andvíg. Mun fleiri voru hlynntir afsögn sexmenninganna úr Miðflokknum og Flokki fólksins í desember sl. í kjölfar umdeildra ummæla á opinberum stað. Þar voru 74-91% Íslendinga hlynnt því að þingmennirnir myndu segja af sér.

Með hækkandi aldri eru Íslendingar líklegri til þess að vera andvígir afsögn þingismannsins. Þeir sem lokið hafa framhaldsskólaprófi eða iðnmenntun eru hlynntastir afsögn Ágústs Ólafs (58,8%) og háskólamenntaðir andvígastir (19,3%).

Íslendingar með heimilistekjur lægri en 550 þúsund eru hlynntastir því að Ágúst Ólafur segi af sér eða um 60%. Tekjuhæsti hópurinn er andvígastur afsögn hans (25,5%).

Kjósendur Framsóknarflokksins og Pírata eru hlynntastir afsögn Ágústs Ólafs (66-67%) en kjósendur Miðflokksins andvígastir (45,8%).

Svarendur voru 817 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Könnunin fór fram dagana 14.-28. desember 2018.

Skýrsluna í PDF formi má nálgast hér.

Aðrar fréttir